Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:45:43 (6870)

2001-04-26 13:45:43# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því sem kom fram í máli hæstv. félmrh. Páls Péturssonar um það að nú verði tekið á þessum málum með lagfæringum á reglugerð.

Hins vegar er alveg ljóst, eins og komið hefur fram, að 600--700 manns starfa hér á landi á tímabundnum atvinnuleyfum, sem á ekki beinlínis rétt eins og lögin eru túlkuð eða lögin eru til atvinnuleysisbóta. Auðvitað þyrfti að lagfæra það í lögunum að það fólk sem verður fyrir atvinnumissi af t.d. verkföllum annarra atvinnustétta eigi slíkan rétt. Það er greitt af þessu fólki í Atvinnuleysistryggingasjóð og auðvitað er eðlilegt að erlent verkafólk frá löndum utan Evrópusambandsins eigi sams konar rétt að þessu leyti og aðrir sem starfa hér.

Ég held að það hafi verið mjög tímabært og sjálfsagt að vekja máls á þessu atriði en það er líka jafngleðilegt að hæstv. félmrh. hefur brugðist svo við sem hann lýsti hér áðan.