Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:47:13 (6871)

2001-04-26 13:47:13# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Um þessar mundir hefur sjómannaverkfall staðið í bráðum heilan mánuð og ástandið versnar með hverjum deginum sem líður. Fiskverkafólk, bæði Íslendingar svo og erlent, hefur misst og er að missa vinnu sína og fleiri og fleiri fiskvinnslufyrirtæki eru að stöðvast. Þetta ástand kemur verst við hinar minni byggðir á landsbyggðinni og kemur íbúum landsbyggðarinnar ákaflega illa og var ástandið ekki gott fyrir.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson hefur hreyft ákaflega mikilvægu máli, sem dúkkar nú upp vegna verkfalls sjómanna. Fram kemur ákaflega mikið óöryggi ákveðins hóps erlends fiskvinnslufólks sem hefur á mörgum stöðum á landsbyggðinni verið burðarásinn í fiskvinnslu viðkomandi staða.

Mikill baráttumaður í verkalýðshreyfingunni, Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, hefur m.a. sagt í blöðum, með leyfi forseta:

,,Við höfum m.a. verið í viðræðum við yfirvöld vegna réttarstöðu fiskverkafólks, almennt og um það réttleysi sem útlendingar búa við, sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem leyfa sér að senda fólk heim í stað þess að greiða því kauptryggingu.``

En sem betur fer fara mörg fyrirtæki þá leið eins og fram kom í máli hæstv. félmrh.

Herra forseti það er dapurlegt til þess að vita að nú í verkfalli sjómanna skuli réttindaleysi þessa fólks fyrst koma upp, fólks sem hefur greitt af sínum launum í Atvinnuleysistryggingasjóð, eins og aðrir launþegar sem hafa þó meiri réttindi þegar verkfall skellur á.

Á hitt vil ég að lokum minna, herra forseti, að íslenskt fiskverkafólk missir mikið af launum sínum nú um þessar mundir, þ.e. bónusgreiðslur, sem er stór hluti heildarlauna þeirra. Íslenskt fiskverkafólk situr nú heima atvinnulaust og með stórskertar tekjur vegna verkfalls sjómanna sem hæstv. ríkisstjórn ber mikla ábyrgð á með sífelldum hótunum sínum og ákvörðunum um frestun verkfalls með lögum eins og gerðist strax eftir að flokksþingi Framsfl. lauk um miðjan mars sl.

Herra forseti. Sú vitlausa ákvörðun ríkisstjórnarinnar lengdi verkfallið mikið og gefur útgerðarmönnum tilefni til að draga lappirnar enn frekar með von um áframhaldandi lagasetningu hæstv. ríkisstjórnar.