Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:54:20 (6874)

2001-04-26 13:54:20# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Staða útlendinga sem hingað koma í atvinnuleit endurspeglar sinnuleysi sem ríkir í málefnum þeirra. Hópurinn sem við erum að ræða hér starfar við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Mönnum hefur fundist það ágætt að fólk, t.d. þeir sem í heimalandi sínu búa við bág kjör, sé tilbúið að koma hingað í störfin sem Íslendingar vilja ekki lengur vinna. Þannig er unnt að tryggja að hjól atvinnulífsins snúist, svo við fáum hagvöxtinn okkar mikilvæga.

Að tryggja réttindi þess sama fólks hefur setið á hakanum. Það er brugðist við núna sem betur fer en þegar ógæfan er skollin yfir. Og útlendingar starfa víða. Ég nefni frægt gjaldþrot Thermo Plus. Þar unnu tugir útlendinga en höfðu sem betur fer allir öðlast atvinnuleysisbótaréttinn.

Í blaðinu í gær kom frétt af ungum Nígeríubúa, lærðum endurskoðanda, sem er búinn að reyna mikið að fá vinnu, er með mikla reynslu, giftur íslenskri konu. Hann segir: ,,Íslendingar verða að gefa útlendingum tækifæri.``

Við Íslendingar verðum að gera það og við verðum að gera það upp við okkur hvernig við ætlum að haga sambúðinni við útlendinga, sem hér kjósa að dvelja og starfa. Við erum ekki búin að gera það upp við okkur. Það er komið að því. Það verður ekki undan því vikist hvort við ætlum að tryggja þeim sömu mannréttindi og við teljum sjálfsögð fyrir okkur, hvort við bjóðum þetta fólk velkomið að deila með okkur kjörum og sýnum það í verki.