Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:01:24 (6877)

2001-04-26 14:01:24# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Gildistími byggðaáætlunar sem unnið er eftir á grundvelli þál. um stefnu í byggðamálum, sem samþykkt var á Alþingi veturinn 1999, rennur út um næstu áramót. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun frá 1999 skal iðnrh. leggja fyrir Alþingi till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir næsta fjögurra ára tímabil, þ.e. frá 1. janúar 2002 að telja. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun skal sú áætlun vinnast í samstarfi við stofnunina.

Því kom það mjög á óvart að heyra í fréttum að hæstv. iðnrh. hefði skipað fjögurra manna verkefnisstjórn til að vinna að mótun nýrrar byggðaáætlunar og enn fremur þrjá starfshópa til að fjalla um tiltekið viðfangsefni við áætlunargerðina. Og þessi skipan virtist hafa verið ákveðin án samþykkis og samráðs við stjórn Byggðastofnunar. Eftir fund stjórnarformanns Byggðastofnunar og hæstv. iðnrh. sagði formaður stjórnar Byggðastofnunar í sjónvarpsfréttum 18. apríl sl., herra forseti, að ráðuneytið mundi senda Byggðastofnun bréf og óska eftir vinnu þeirra í starfshópum, undirhópum verkefnisstjórnarinnar en ekki í verkefnisstjórninni sjálfri. Hann sagði einnig að stjórnin mundi skoða málið þegar bréfin bærust og taka ákvörðun í framhaldi af því. Stjórnarformaðurinn taldi að Byggðastofnun ætti að leika lykilhlutverkið í því að smíða byggðaáætlun eðli málsins samkvæmt, til þess væri stofnunin, það væri hennar helsta hlutverk og tóku fleiri stjórnarmenn undir þessa skoðun formannsins.

Því er ljóst, herra forseti, að það hefur verið mikill ágreiningur innan Framsfl. um stjórnskipun byggðamála og vinnu við gerð byggðaáætlunar. Þetta reiptog virðist svo halda áfram, herra forseti, því samkvæmt fréttum í hádeginu í dag virðist hæstv. iðnrh. hafa orðið að láta undan í þessu stríði og staðið frammi fyrir einhvers konar afarkostum af hálfu stjórnar Byggðastofnunar því samkvæmt fréttum hefur stjórn Byggðastofnunar fengið fulltrúa í verkefnisstjórnina. Spurningin hlýtur að vera hver ræður hér eiginlega ferð. (Gripið fram í: Kristinn.)

Þá vekur enn fremur athygli það val á meginverkefnaflokkum sem vinna á að við næstu gerð byggðaáætlunar, þ.e. atvinnulíf, uppýsinga- og tæknisamfélagið og í þriðja lagi erlent samstarf. Hvergi er minnst á almannaþjónustu eða jöfnunaraðgerðir eða aðra félagslega þætti sem eru grundvallaratriði í jöfnun búsetuskilyrða. Þetta hljótum við að undrast, herra forseti.

Herra forseti. Enn fremur var lofað skýrslu nú í vor um úttekt á framkvæmd og árangri núgildandi byggðaáætlunar. Slík úttekt ætti að sjálfsögðu að vera forsenda fyrir vinnu við gerð næstu byggðaáætlunar. Það má vel vera að svo lítið hafi gerst og svo léttvægur árangur náðst að ekki þyki taka því að semja um það sérstaka skýrslu og því sé það best látið ógert.

Herra forseti. Það virðist hafa litlu breytt þótt byggðamál hafi verið færð frá forsrn. til iðnrn. Áfram ríkir sama skipulagsleysið og metnaðarleysið sem nú lýsir sér best í innanhússátökum Framsfl. um stjórn þessara mála.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er afar ósátt við framgang byggðamála í höndum núverandi ríkisstjórnar og samþykkta Alþingis í byggðamálum. Þess vegna lagði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í upphafi yfirstandandi þings fram þáltill. um aukaþing Alþingis sem fjalla skyldi eingöngu um byggðamál og haldið yrði sumarið 2001. Aukaþingið átti að fjalla um framtíðarþróun byggða í landinu og marka stefnu um byggðamál til næstu tveggja áratuga.

Í tillögunni er gert ráð fyrir víðtæku samstarfi við sveitarstjórnir og helstu stofnanir sveitarfélaga og hins opinbera sem koma að byggðamálum, félagasamtök og einstaklinga. Þetta þing átti að helga sig eingöngu því að finna lausn á þeim knýjandi vanda sem byggðir landsins standa frammi fyrir.

Hæstv. iðnrh. hefði betur fallist á það í haust að veita þessari tillögu brautargengi því þá værum við nú að vinna að þjóðarsátt í byggðamálum í stað þess að fylgjast með því hvernig byggðamál eru látin snúast um innanhússátök í Framsfl. eða persónulegt karp milli einstaklinga í stjórnarflokkunum.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að beina máli mínu og spurningum til hæstv. iðnrh.:

Hver voru raunverulega rökin fyrir því af ráðherrans hálfu að stjórn Byggðastofnunar skyldi enga beina aðkomu hafa að vinnu við gerð nýrrar áætlunar í byggðamálum, þó svo nú hafi verið breytt þar um, og hver ræður nú þar ferð? Hverju sætir að úttekt á framkvæmd og árangri gildandi byggðaáætlunar liggur enn ekki fyrir?

Herra forseti. Hvers vegna eru áhersluatriði við gerð nýrrar byggðaáætlunar takmörkuð við einungis þrjá málaflokka og hvað réði vali þeirra?

Í síðasta lagi, herra forseti: Mun Alþingi fá tækifæri til að ræða áherslur sínar í byggðamálum áður en vinna við næstu byggðaáætlun fer í gang?