Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:16:11 (6881)

2001-04-26 14:16:11# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ekki er langt síðan að Byggðastofnun var færð frá forsrn. til iðn.- og viðskrn. Með breytingunni var ábyrgð byggðamála alfarið komin á hendur Framsfl. og mátti telja að einhverjar áherslubreytingar yrðu hvað varðaði uppbyggingu landsbyggðarinnar að nýju því lítið hafði farið fyrir áhuga undir forustu forsætisráðherra Sjálfstfl. Því miður hefur lítið gerst sl. tvö ár, a.m.k. svo merkjanlegt sé í styrkari búsetu og atvinnu og mannlífi úti um nær allt land.

Byggðastofnun hefur breytt vinnubrögðum og stuðlað að styrkari starfsemi þróunarstofa á landsbyggðinni en því miður hefur ekki enn tekist að byggja þar nægilega upp til að geta sinnt þeim nýsköpunarverkefnum og ráðgjöf sem þörf er fyrir.

Vonir um góðan viðsnúning í byggðaþróun hafa brugðist og hefur þá engu skipt að breyta um flokkslega ábyrgð málaflokksins. En nú virðist sem núningur á milli stjórnarflokkanna og innan Framsfl. sé að koma fram í svo mikilvægu máli og koma málinu í hnút þar sem Byggðastofnuninni var ekki hleypt að verkefnastjórn varðandi byggðaáætlun undir forustu iðnrh. En eins og fram hefur komið í umræðunum hefur verið bætt úr þessu.

Herra forseti. Við þessar aðstæður tel ég brýnt að minna á þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um aukaþing Alþingis um byggðamál nú í sumar þar sem fjallað verði um framtíðarþróun byggðar í landinu og í framhaldi af því mótuð markviss byggðastefna til næstu tveggja áratuga. Mikilvægt er, herra forseti, að vinna að þjóðarsátt um uppbyggingu byggðar úti um land og til þess þurfum við umræðu og sátt á Alþingi því það virðist ekki vera að Byggðastofnun undir forustu iðnrh. hafi unnið nægilegt verk.