Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:20:28 (6883)

2001-04-26 14:20:28# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Aldrei er of oft rætt um stöðu byggðamála, sérstaklega hvað varðar dreifðari byggðir.

Ég vona að sú skipan takist sem hæstv. byggðamálaráðherra hefur ákveðið varðandi ráðgjafahóp eða nefnd þá sem á að gera tillögur um stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir. Þessi aðgerð og nýskipan er umdeild en ég bind vonir við að hún gefist vel. Úr því að fallist hefur verið á að skipa ráðgjafa til viðbótar, þá hefði ég viljað sjá fulltrúa eins og Þorstein Gunnarsson, rektor á Akureyri, til viðbótar við þennan hóp.

Ástandið er skelfilegt vegna rangrar framkvæmdar fiskveiðistjórnarkerfisins, samanber sjómannaverkfallið. Röng landbúnaðarstefna um langt árabil er sífellt að koma betur í ljós og það mun sjást best á næstu dögum þegar í ljós koma þau sár í atvinnulífi landsbyggðarinnar sem myndast við endurskipulagningu afurðastöðvarinnar Goða. Það verður á næstu dögum og það mun tengjast byggðum sem byggja eingöngu á atvinnu við landbúnaðarafurðir.

Fróðlegt verður að sjá skýrslu um brottkast fisks sem stendur til að birta á morgun. Mér þykir líklegt að ef brottkastið hefði komið til vinnslu hefði það gjörbreytt stöðu sjávarplássanna á Íslandi.

Sífellt er verið að þrengja að og er nærtækt að vísa til flutninga tuga starfa af landsbyggðinni til Reykjavíkur vegna breytinga hjá Íslandspósti og Landssímanum.

Herra forseti. Ég vona að nýskipan og breytt hugsun um byggðamál beri árangur en þetta verkefni er aðkallandi, þolir enga bið miðað við horfur í dag. Ég óska ráðgjafanefndinni og hæstv. ráðherra alls hins besta við þetta flókna úrlausnarefni.