Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:22:43 (6884)

2001-04-26 14:22:43# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vinnubrögð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. í byggðamálum eru með hreinum endemum. Það má segja að þar sé allt í rjúkandi rúst. Þeir sem til þekkja vita t.d. að Byggðastofnun, aðalframkvæmdatækið í þessum málaflokki, hefur meira og minna verið lömuð í hálft ár, eitt ár, eitt og hálft ár, vegna illinda þar og mannabreytinga og mál fást ekki afgreidd.

Fljótræðisleg nefndarskipan hæstv. ráðherra, sem hefur reyndar verið brotin á bak aftur, er angi af þessum illindum sem birtast í útbrotum innan stjórnarflokkanna og milli þeirra. Hæstv. ráðherra byggðamála hefur þó rofið þá pólitísku samstöðu sem fyrir var um málaflokkinn. Ekki er von að vel gangi, hv. þingmenn, þegar kemur að hinum eiginlegu byggðaaðgerðum þegar skýrslugerðin og upplýsingaöflun veldur slíkum illdeilum sem raun ber vitni. En það er um það sem menn hafa verið að rífast í fjölmiðlunum undanfarna daga. Ekki hinn eiginlega vanda og ekki aðgerðir. Nei, um skýrslugerðina og áætlanagerðina. Og upplýsingasöfnun. Allt grenjandi vitlaust innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra út af pappírunum. Í þetta fer tíminn á meðan byggðunum blæðir úr.

Byggðarlög sem hafa orðið fyrir stóráföllum í atvinnulegu tilliti hafa beðið í hálft ár, í eitt ár, í eitt og hálft ár með úrlausn mála sinna og enga afgreiðslu fengið. Þetta er staðreynd. Best er að sleppa nöfnum til að hlífa þeim sem í hlut eiga við því.

Það er líka mjög alvarlegt, herra forseti, hvernig hæstv. ráðherra túlkar nýlegar lagabreytingar. Eins og þær hafi falið í sér að byggðamál séu eftir það orðin geðþóttaverkefni hæstv. ráðherra og engum öðrum komi við hvernig ráðherra fer með þau. Heyr á endemi. Og halda því fram að það hafi verið til bóta að kasta burt þingkjörinni stjórn. Hvað fólst í því? Það sem fólst í því var að henda út fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem áttu aðild að málaflokknum í gegnum kjör hér á þingi og þar með að rjúfa pólitíska samstöðu um málaflokkinn. Ekki er nema von að dapurlega gangi, herra forseti, þegar svona er unnið að hlutunum.