Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 15:17:43 (6890)

2001-04-26 15:17:43# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum hér lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en við nánari skoðun má öllum ljóst vera að hér er vegið að sjálfstæðu ákæruvaldi í landinu. Það er vegið að ákæruvaldinu, sem á sínum tíma var fært frá dómsmrh. yfir til sjálfstæðrar stofnunar sökum þess að menn töldu ekki eðlilegt að í réttarríki væri ákæruvaldið á herðum stjórnmálamanna sem kæmu og færu. Talið var eðlilegra að sjálfstæð stofnun færi með ákæruvaldið. En hér, virðulegi forseti, er ætlunin að breyta þessu fyrirkomulagi. Sú breyting á sér enga hliðstæðu í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991. Ég mun gera hér grein fyrir álitinu auk brtt. sem hér hefur verið lögð fram á þskj. 1134 frá þeim sem hér stendur og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni.

Virðulegi forseti. Ákæruvaldið hefur ekki alltaf verið í höndum sjálfstæðrar ríkisstofnunar. Ákæruvaldið var ýmist hjá dómurum eða dómsmrh. um langt skeið. Á meðan ákæruvaldið var hjá dómurum var talað um að hér ríkti rannsóknarréttarfar. Árið 1951 hófst sú þróun að færa ákæruvaldið frá dómurum alfarið yfir til dómsmrh. Í framhaldi af því var ákæruvaldið fært frá dómsmrh. til sjálfstæðrar stofnunar, sem þá hét saksóknari ríkisins, árið 1961. Þannig hefur það verið allar götur síðan þar til nú að núverandi meiri hluti hér á hinu háa Alþingi ætlar að leggja til að hluti af þessu valdi, ákæruvaldinu, fari aftur til dómsmrh.

Allt frá setningu laga nr. 27/1951 hefur réttarþróun varðandi meðferð ákæruvalds verið að þróast frá rannsóknarréttarfari til ákæruréttarfars. Með setningu laganna frá 1951 var ákæruvaldið flutt að mestu frá dómurum til dómsmrh. Segja má að þessi breyting marki upphaf ákæruréttarfars hér á landi. Þetta var þó aðeins fyrsta skrefið. Til þess að hugmyndafræðin að baki ákæruréttarfari gengi upp varð að færa ákæruvaldið frá stjórnvöldum til sjálfstæðrar stofnunar sem væri óháð fyrirmælum framkvæmdarvalds og stjórnmálamanna í einstökum málum. Það var gert með lögum um saksóknara ríkisins árið 1961. Ákæruvaldið er því nú hjá ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu. Meginreglan er því sú að ákvörðunum hans verður ekki skotið til dómsmrh. þar sem ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu; ákvarðanir hans eru því fullnaðar\-ákvarðanir að því er varðar sakarannsóknir. Í lögum er þó að finna eina undantekningu frá meginreglunni um að ríkissaksóknari sé æðsti handhafi ákæruvalds. Í 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð opinberra mála er ákvæði þess efnis að telji dómsmrh. ákvörðun ríkissaksóknara um niðurfellingu máls fjarstæða eða löglausa getur ráðherra lagt til við forseta Íslands að ákvörðunin verði felld úr gildi og er mál þá höfðað í framhaldi af því ef þannig vill verkast. Þetta ákvæði felur ekki í sér fráhvarf frá þeirri stefnu sem mörkuð var með stofnun embættis saksóknara ríkisins 1961.

Fyrir tveimur árum var lögfest nýtt ákvæði, sem nú er 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála, þess efnis að þegar sérstaklega standi á sé ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök er fyrnd, ef ríkir almanna- eða einkahagsmunir mæla með því. Með öðrum orðum, í lögum er heimild til þess að taka til rannsóknar mál, þótt ljóst sé að refsingu verði ekki komið við, ef ríkissaksóknari telur það þjóna ríkum almanna- og einkahagsmunum. Þetta ákvæði er í eðli sínu andstætt tilgangi sakarannsókna, því að eins og fram kemur í 67. gr. laga um meðferð opinberra mála er markmið sakarannsókna að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða hvort sækja skuli menn til saka eður ei. Í þeim tilvikum þar sem sök er fyrnd kemur ekki til álita að gefa út ákæru, því er það markmið horfið út úr rannsókninni. Það breytir ekki hinu að rannsókn samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála hefst ekki nema fyrir liggi vitneskja eða grunur um refsiverða háttsemi og því miðar rannsókn samkvæmt þeim lögum að því að varpa ljósi á hana. Það breytir engu, að því er varðar rannsóknina sjálfa, hvort að henni lokinni verður gefin út ákæra eður ei, rannsóknin fer eins fram.

Dómsmálaráðuneytið hefur túlkað 4. mgr. 66. gr. svo að ákvörðun ríkissaksóknara um að hefja ekki rannsókn sé ekki kæranleg til ráðuneytisins, samanber bréf til hæstaréttarlögmanns, dags. 5. desember 2000, sem hér er í fylgiskjali. Hann hafði óskað eftir því að ráðuneytið endurskoðaði ákvörðun ríkissaksóknara skv. 4. mgr. 66. gr. Í því bréfi var lögmanninum tilkynnt sú ákvörðun dómsmálaráðherra að hann hygðist leggja fram frv. á Alþingi til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála þannig að unnt yrði að skjóta ákvörðunum ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra. Í bréfi ráðuneytisins segir enn fremur: ,,Verði umrætt frumvarp að lögum mun ráðuneytið taka mál skjólstæðings yðar til meðferðar að eigin frumkvæði á grundvelli breyttra laga.``

Ráðuneytið hefur gefið undir fótinn með það að verði þetta frv. að lögum þá muni það að eigin frumkvæði taka þetta mál upp. Hvort í því felst einhver dómur eða álit ráðuneytisins á niðurstöðu ríkissaksóknara skal ósagt látið hér en þó má draga þá ályktun af þessum orðum.

Virðulegi forseti. Til að átta sig á því um hvað þetta mál snýst verða menn að skynja hvað felst í ákæruvaldi. Í ákæruvaldi felst í fyrsta lagi að ríkissaksóknari getur tekið um það ákvörðun að hefja rannsókn. Í öðru lagi getur ríkissaksóknari ákveðið að hætta rannsókn, hann getur ákveðið hvernig rannsókn fer fram og í fjórða lagi getur ríkissaksóknari ákveðið hvort ákæra skuli gefin út eður ei. Allt þetta felst í ákæruvaldinu. Ríkissaksóknari er yfirmaður þessa þáttar og því felast allir þessir þættir í ákæruvaldinu: Heimild til að ákveða rannsókn, til að stjórna rannsókn, til að fella niður mál, til að ákveða að gefa út ákæru, heimild til að ákveða að fella niður eða að gefa ekki út ákæru auk fleiri heimilda sem ekki skipta máli hér við þessa umræðu. Það er því eðlilegt að menn spyrji: Hvað er þá verið að reyna að lögfesta með þessu frv.?

Í ljósi alls þessa er rétt að reyna að átta sig á því hvers konar efnisreglu er hér ætlunin að lögfesta. Áður en lengra er haldið er rétt að rifja það upp að rannsókn opinberra mála hefur það sem meginmarkmið að afla allra nauðsynlegra gagna svo að mögulegt sé að ákveða hvort maður skuli sóttur til saka eður ei. Það er gert þannig að öll atriði sem lúta að hinni refsiverðu háttsemi eru rannsökuð hvort sem þau eru líkleg til að leiða til sektar eða sýknu. Sú rannsókn sætir svo eðlilegri endurskoðun hjá dómstólum komi til þess að ákæra sé gefin út á grundvelli rannsóknarinnar.

Rannsókn á máli þar sem sök er fyrnd hefur ekki það markmið að afla gagna svo að mögulegt sé að ákveða hvort maður skuli sóttur til saka eður ei vegna þess að sök er fyrnd og því verður ákæra ekki gefin út. Það breytir ekki því að rannsókn, samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, hefur það markmið að leiða í ljós hvort refsiverð háttsemi hafi verið framin og hver framdi þá háttsemi. Í þeim efnum breytir engu hvort sök er fyrnd eður ei, rannsóknin hefur sama tilgang. Sá er munurinn að sú rannsókn mun ekki koma til endurskoðunar hjá dómstólum því að aldrei mun verða ákært í málinu. Það er því vandasöm ákvörðun að ákveða að rannsókn vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi, þar sem sök er fyrnd, skuli fara fram. Með því að ákveða að rannsókn skuli fara fram er því verið að segja að fram sé komin vitneskja eða grunur um að refsiverður verknaður hafi verið framinn skv. 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála en sú rannsókn mun aldrei koma til endurskoðunar hjá dómstólunum. Þeir sem eru grunaðir um refsiverða háttsemi munu eiga erfitt með að hnekkja niðurstöðu rannsakenda því að málið mun ekki koma fyrir dómstóla, samkvæmt því frv. sem við ræðum hér, a.m.k. ekki sem sakamál.

Með því frv. sem hér liggur fyrir er verið að leggja til að dómsmálaráðherra geti endurskoðað ákvörðun ríkissaksóknara um að taka fyrnd mál ekki til rannsóknar. Það er mjög vandasamt að ákveða að rannsaka mál þar sem sök er fyrnd. Í ljósi þess að rannsókn, samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, fer ekki fram nema fyrir liggi grunur um að refsiverð háttsemi hafi verið framin er augljóst að æra manna er í húfi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Þetta verður öllu alvarlegra þegar ætlunin er að fela stjórnmálamanni þetta vald eins og hér er lagt til. Hafa verður í huga að sú rannsókn sem færi fram samkvæmt frv. yrði ekki endurskoðuð af dómstólum. Hér er ekki verið að halda því fram að núverandi dómsmrh. eða dómsmálaráðherrar framtíðarinnar muni nota þessa heimild til að hafa æruna af mönnum en sú hætta yrði vissulega til staðar.

Með því að heimila dómsmrh. að endurskoða ákvörðun ríkissaksóknara er verið að fela honum að endurmeta gögn sem ríkissaksóknari byggði á ákvörðun sína um að hafna rannsókn. Við þetta mat hyggst löggjafinn ekki leggja ráðherranum neinar línur aðrar en þær að um ríka almanna- eða einkahagsmuni kunni að vera að ræða. Með því að taka ákvörðun um rannsókn er því óbeint verið að bera menn sökum sem þeir kunna hugsanlega aldrei að geta borið af sér. Í þessu frv. eru ekki sett nein skilyrði um að einhverjar aðstæður hafi verið uppi sem gert hafi að verkum að málið var aldrei tekið til skoðunar eða rannsókn þess hætt.

Það er jafnan alvarleg ákvörðun að hefja opinbera rannsókn samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála vegna þess að í slíkri ákvörðun felst að fram séu komin gögn sem a.m.k. kveiki grun um að refsiverður verknaður hafi verið framinn. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að þegar slíkt vald er komið í hendur stjórnmálamanna er alltaf hætta á að því verði beitt í samræmi við það. Það er enn fremur spurning hvernig menn hyggjast standa að slíkri rannsókn. Fyrir því er engin grein gerð, hvorki í frv. eða greinargerðinni.

Þá er vert að nefna það að hvergi í þeim löndum sem við höfum viljað bera okkur saman við er að finna heimild sem þá sem hér er ætlunin að lögfesta. Þetta yrði því einstakt hér á landi.

[15:30]

Þegar menn reyna að átta sig á eðli ákæruvalds, nauðsyn á sjálfstæðu ákæruvaldi, markmiðum opinberra rannsókna og þeirri þróun sem hefur orðið hér á landi undanfarna áratugi að því er varðar meðferð ákæruvalds er erfitt að átta sig á því hvað mönnum gengur til með þessari lagabreytingu. Eina sýnilega tilefnið, og reyndar í eina skiptið sem reynt hefur á 4. mgr. 66. gr., kemur fram í svari ráðuneytisins við erindi hæstaréttarlögmannsins frá því 5. desember sl., sem vitnað er til hér að framan. Það vekur sérstaka eftirtekt í umræddu bréfi að ráðuneytið lýsir yfir því að það muni taka það mál upp að eigin frumkvæði verði þetta frumvarp að lögum. Hvort í því felist yfirlýsing ráðuneytisins um að ákvörðun ríkissaksóknara hafi verið röng skal ósagt látið en tíminn mun leiða það í ljós verði þetta frv. að lögum.

Það kom fram á fundi hv. allshn. að tilefni þessa frv. er mál það sem vitnað er til hér að framan og ráðuneytið svaraði erindi um með bréfi eins og áður er vitnað til dagsettu 5. desember sl. Það er því tilefni til að ræða það sérstaklega hvort eðlilegt sé að grípa til svo viðamikilla breytinga á lögum um meðferð opinberra mála, breytinga sem stríða gegn grundvallarhugsun laganna. Ef vilji hefur staðið til þess að þetta tiltekna mál yrði tekið sérstaklega fyrir hefði verið miklu eðlilegra að setja um það sérlög, eins og t.d. Danir hafa gert í einhverjum tilvikum. Það að ætla sér að setja almenn lög, þar sem sjálfstæði ríkissaksóknara er skert eins og raun ber vitni, telur minni hlutinn alvarlega aðför að sjálfstæði embættis ríkissaksóknara og að ákæruvaldinu í landinu.

Að lokum er nauðsynlegt að nefna það að í lögum er heimild til að taka til rannsóknar mál þar sem sök er fyrnd. Það sem hér er verið að gera er að lögfesta undantekningarreglu frá þeirri meginreglu að ríkissaksóknari sé æðsti handhafi ákæruvalds með því að heimila stjórnsýslukæru til dómsmrh. í því tilviki að ríkissaksóknari synjar um að hefja rannsókn á máli þar sem sök er fyrnd. Eins og rakið var hér að framan verður ekki gefin út ákæra vegna rannsóknar sem fram fer undir þessum kringumstæðum, rannsóknin verður því ekki sett undir mælistiku dómstóla. Slík rannsókn getur orðið einstaklingum miklu þungbærari en rannsókn sem leiðir á endanum til þess að ákæra er gefin út þar sem dómstólar endurskoða þá rannsókn við meðferð málsins. Í tilvikum þar sem sök er fyrnd eiga einstaklingar sem liggja undir grun ekki annarra kosta völ en að höfða ærumeiðingamál á hendur dómsmrh. vilji þeir fá rannsóknina endurmetna eða telji þeir niðurstöðu hennar ekki sannleikanum samkvæma.

Ekki er hægt að líta fram hjá því að upp kunna að koma tilvik þar sem ríkissaksóknari, sem æðsti yfirmaður opinberra rannsókna, á erfitt um vik að ákvarða hvort mál skuli rannsakað þrátt fyrir að sök sé fyrnd, t.d. ef grunur leikur á að rannsakendur hafi komið sök á einstaklinga eða rannsókn tiltekins sakamáls öll verið í skötulíki. Eðlilegra væri að löggjafinn, að frumkvæði dómsmrh., setti ýmist sérlög um rannsóknir í slíkum tilvikum og bæri þá ábyrgð á slíkri rannsókn. Líkar hugmyndir mundi minni hlutinn geta stutt eins og ég mun gera grein fyrir hér á eftir þegar ég mæli fyrir brtt. En að ætla sér að setja almenn lög sem heimila dómsmrh. að taka ákvörðun ríkissaksóknara til endurskoðunar án nokkurra takmarkana er með eindæmum og á sér enga hliðstæðu í löggjöf þeirra ríkja sem við viljum bera okkur saman við.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef farið yfir í nál. minni hlutans er það skýlaus afstaða hans að hér sé um að ræða aðför að sjálfstæðu ákværuvaldi í landinu. Það vill þannig til að ég er ekki, virðulegi forseti, einn um þessa skoðun. Allir þeir sem gáfu umsagnir um þessi mál gerðu athugasemdir við þessa málsmeðferð og þessa tillögu. Allir sem komu fyrir nefndina gerðu þær athugasemdir við þær hugmyndir sem hér er ætlunin að lögfesta að með þeim yrði veist að ákæruvaldinu.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að fara yfir þær athugasemdir í þaula en þessar athugasemdir komu m.a. frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Þar segir að málum sé eins og nú er vel fyrir komið hjá ríkissaksóknara. Dómstólaráð leggur mikla áherslu á sjálfstæði ákæruvalds í landinu og telur að undantekningar á því verði að vera orðaðar þröngt. Sýslumannafélagið segir, með leyfi forseta:

,,Sýslumannafélag Íslands gerir þá athugasemd við ofangreint frumvarp til laga að skv. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þá er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvaldsins og ekki sé rökbundin nauðsyn til þess að gera þá breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem frumvarpið boðar.``

Ríkissaksóknari sjálfur leggst eindregið gegn þessum hugmyndum auk þess sem Lögmannafélagið leggst eindregið gegn því líka.

Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að meðal helstu sérfræðinga sem hafa tjáð sig um þetta er ekki að finna einn einasta aðila sem telur að hér sé vel að verki staðið. Allir sem gefa umsögn tala um hversu nauðsynlegt er að viðhalda sjálfstæðu ákæruvaldi. Jafnvel þó að endurupptaka svona mála og ákvörðun um rannsókn leiði ekki til þess að ákæra verði gefin út þá er ákvörðunin um rannsóknina og hvernig hún skuli fara fram o.s.frv., óaðskiljanlegur þáttur í meðferð ákæruvalds. Sá þáttur er undanþeginn.

Hins vegar, virðulegi forseti, eins og ég kom að áðan, er það svo að þar sem ríkissaksóknari er æðsti yfirmaður rannsókna í málinu þá kunna að koma upp tilvik þar sem hann á erfitt um vik. Hann gæti hugsanlega hafa rannsakað það mál eða verið yfirmaður rannsókna á sínum tíma o.s.frv. Af þeim sökum leggjum við til, sá er hér stendur og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, að í stað þeirra hugmynda sem meiri hlutinn hefur, verði gerð eftirfarandi breyting á lögunum:

,,Nú hefur ríkissaksóknari hafnað beiðni þess sem á hagsmuna að gæta og getur þá sá kært ákvörðun ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra. Sé ákvörðun ríkissaksóknara felld úr gildi skal dómsmálaráðherra leggja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar um skipun þriggja manna rannsóknarnefndar til að fara með málið. Í þingsályktunartillögunni skal koma fram hverjir skipi nefndina, hvert sé andlag rannsóknarinnar og fjárframlög auk rökstuðnings ráðherra fyrir því að fella ákvörðun ríkissaksóknara úr gildi. Nefndin skal fá aðgang að öllum rannsóknargögnum auk þess sem hún hefur rétt til að taka skýrslur samkvæmt lögum þessum og afla annarra gagna eftir því sem við á. Nefndin skal skila Alþingi, dómsmálaráðherra og ríkissaksóknara skýrslu með niðurstöðum sínum. Hafni Alþingi þings ályktunartillögunni, eða afgreiði hana ekki, er ákvörðun dómsmálaráðherra úr gildi fallin og stendur þá fyrri ákvörðun ríkissaksóknara.``

Sú grundvallarbreyting, virðulegi forseti, sem felst í þessari brtt., miðað við þær hugmyndir sem meiri hlutinn hér á hinu háa Alþingi hefur, er fyrst og fremst sú að hæstv. dómsmrh. er ekki falið sjálfdæmi um hvort mál skuli endurupptekin eður ei. Á endanum þyrfti Alþingi að staðfesta þá ákvörðun.

Það er vægast sagt dálítið sérstakt að sú hugmyndafræði sem hér er ætlunin að lögfesta er algerlega í andstöðu við þá fyrrum foringja Sjálfstfl. sem fyrstir manna fluttu hér á hinu háa Alþingi tillögur um að stofna sjálfstætt embætti saksóknara ríkisins. Sá fyrsti sem lagði þessar hugmyndir fram var fyrrum forsrh., Gunnar Thoroddsen heitinn, en í grg. með frv. hans frá því árið 1934 segir hann eitthvað á þá leið að fátt sé hættulegra en að slíkt vald skuli vera í höndum stjórnmálamanna.

Með leyfi forsrh. ætla ég að vitna hér í grg. með frv. sem Gunnar Thoroddsen lagði fram 1934, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákæruvaldið er réttur ríkisvaldsins til þess að kæra mann til refsingar fyrir ólöglegar athafnir hans. Það felur í sér heimild til þess að fyrirskipa opinbera rannsókn og málshöfðun gegn hverjum þeim manni sem álitið er að hafi gerst brotlegur við lög. Í meðferð ákæruvaldsins er hvort tveggja jafnmikilvægt, að því sé beitt gegn þeim sem afbrot hafa framið og því sé ekki beitt gegn saklausum mönnum. Það getur haft geigvænleg áhrif ef maður er ákærður fyrir afbrot sem hann er alsaklaus af, jafnvel þótt hann verði sýknaður að lokum. Ákæran ein, með allri þeirri rekistefnu, réttarhöldum og e.t.v. varðhaldi sem sakamálsrannsókn eru samfara, getur gert honum slíkt tjón bæði í andlegu og efnalegu tilliti að hann bíði þess aldrei bætur. En jafnnauðsynlegt og það er að enginn maður sé saklaus eltur með sakamálsrannsókn og málshöfðun, jafnnauðsynlegt er hitt að refsivöndur laganna sé aldrei látinn hvíla þegar glæpur er drýgður. Sé það látið hjá líða að höfða refsimál út af uppvísu afbroti og hinn seki látinn sleppa hlýtur það að veikja stórlega réttaröryggið í landinu.``

Og áfram segir flutningsmaður:

,,Nú er þetta ákæruvald`` --- þ.e. árið 1934 -- ,,samkvæmt íslenskum lögum að mestu í höndum dómsmálaráðherra sem valdir eru af stjórnmálaflokkum og standa sjálfir í eldi stjórnmálabaráttunnar. Þess vegna getur hæglega svo farið, eins og reynslan sýnir ótvírætt, að í meðferð þess sé gengið á svig við það sem rétt er og löglegt og það notað til ofsóknar og yfirhylmingar. Hjá okkur Íslendingum er sérstaklega hætt við slíkri misbeiting þar sem hér er oftast barist í návígi og öldur flokkabaráttunnar rísa hærra en víða annars staðar.``

Ég vil segja, virðulegi forseti, að í þessum örfáu línum nær Gunnar Thoroddsen að kristalla kjarna þessa máls sem er sá að ákværuvaldið er mjög vandmeðfarið. Það er mjög alvarlegt að ákæruvaldið geti lent --- jafnvel þó að það sé ekki nema hluti af því --- hjá pólitískt kjörnum fulltrúum. Við vitum aldrei hverja við munum fá í þau embætti. Við vitum aldrei hvernig slíkir menn geta farið með þetta vald. Við eigum ekki að tefla því í tvísýnu með því að færa þetta vald yfir til dómsmrh. í andstöðu við réttarþróun undanfarinna áratuga, í andstöðu við öll þau ríki sem við höfum viljað bera okkur saman við.

Þá er ekki síður, virðulegi forseti, merkilegt að lesa orð annars fyrrverandi forsrh. og fyrrverandi foringja sjálfstæðismanna, Bjarna Benediktssonar, en þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Að því er síðara atriðið varðar`` --- þ.e. meðferð ákæruvaldsins --- ,,er því haldið fram að almenningi sé skapað meira réttaröryggi með meðferð þessa valds ef ópólitískur embættismaður fari með það í stað þess, eins og nú er, að sá er gegnir embætti dómsmrh. langan tíma eða stuttan, löglærður eða ekki, hafi með höndum meðferð þessa mikilvæga valds. Einnig er á það bent að meiri líkur séu fyrir fullnægjandi málsókn í opinberum málum ef sami sérfróði maður, saksóknari, fylgist með málum frá upphafi.``

[15:45]

Báðir þessir fyrrum leiðtogar Sjálfstfl. kristalla einmitt kjarnann í þessu: Ákæruvaldið er vandmeðfarið. Ákæruvaldið er angi af ríkisvaldinu. Ákæruvaldið er réttur ríkisins til að sækja þá til saka sem hafa brotið eða eru taldir hafa brotið gegn þeim reglum sem við höfum komið okkur upp í þessu samfélagi. Þess vegna er algert lykilatriði og algert grundvallaratriði að sá er fer með þetta vald sé sjálfstæður og eigi ekkert undir geðþóttaákvörðun þess dómsmrh. sem situr á hverjum tíma.

Hins vegar má ekki gleyma því að upp kunna að koma þau tilvik sem nauðsynlegt er að skoða frekar. En það má ekki vera þannig að hæstv. dómsmrh. hafi sjálfdæmi um hvort í það verði ráðist eður ei. Það má aldrei vera þannig.

Í þeirri brtt. sem hér er lögð fram er því gert ráð fyrir að komi það upp að nauðsynlegt sé að endurskoða mál sem eru fyrnd þá verði það ekki gert nema Alþingi samþykki það. Í slíkum tilvikum á Alþingi vitaskuld að bera ábyrgð á því. Við hljótum að spyrja okkur þegar ætlunin er, ef við gefum okkur dæmi sem væri hugsanlega raunverulegt og hugsanlega ekki, að taka stórt mál þar sem menn eru sakaðir um að rannsókn hafi ekki verið sem skyldi þá er sú ákvörðun ein, eins og hér er lagt upp með, þ.e. að hún verði reist á grundvelli laga um meðferð opinberra mála, tekin á þeirri forsendu að grunur eða vitneskja sé um að refsiverð háttsemi hafi verið framin. Um leið, af því að þessi forsenda er til staðar, er verið að segja að gögn hafi verið lögð fram sem benda til að hlutirnir hafi ekki verið sem skyldi. Það er mjög vandasamt að sitja undir slíku. Þessi ákvörðun mun ekki koma til endurskoðunar dómstóla af því að ekki verður gefin út ákæra. Það væri líklega betra fyrir viðkomandi, í þeim tilvikum þar sem sök er fyrnd, að ákæra væri gefin út vegna þess að þá fengju þeir þessa tilteknu rannsókn endurskoðaða. Þetta er lykilatriði.

Þess vegna, virðulegi forseti, er í brtt. þeirri sem ég hef mælt fyrir lagt til að komi til að slík rannsókn þurfi að fara fram þá sé ekki um lögreglurannsókn að ræða heldur verði skipuð sérstök þriggja manna nefnd sem fái fullt umboð til að kanna öll gögn, yfirheyra menn í samræmi við lög um meðferð opinberra mála og reyna að komast að því hvað gerðist raunverulega, til þess að --- ef nota má svo hástemmt orð --- leita sannleikans. Það getur komið til að það sé nauðsynlegt. En það er fráleitt að dómsmrh. hafi um það sjálfdæmi hvort slík ákvörðun sé tekin eður ei. Satt best að segja finnst mér alvarlegt mál að slíkar hugmyndir komi inn á hið háa Alþingi. Það tók yfir 30 ár að koma þessu ákæruvaldi frá dómsmrh. og dómurum til ríkissaksóknara, til sjálfstæðrar stofnunar.

Mér finnst það líka, virðulegi forseti, vegna þess að það kom fram í allshn., vægast sagt dálítið stórt að tilefnið til að kúvenda kerfinu með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir er eitt mál sem hefur komið til skoðunar. Það er tilefnið. Það mál er án efa alvarlegt og án efa liggur þar eitthvað sem nauðsynlegt er að skoða, um það er ég ekki í minnsta vafa, en að ætla að kúvenda kerfinu á þann hátt sem raun ber vitni er merkilegt.

Ekki má heldur gleyma því að í dag má bera ákvörðun ríkissaksókna undir dómstóla, hún lýtur því sjálfstæðri endurskoðun dómstóla eins og aðrar ákvarðanir enda hefur það verið gert. Ekki er langt síðan ónefndur maður sem tengdist tilteknu sakamáli fékk niðurstöðu Hæstaréttar þar um. Það hefur verið gert og það er ofur eðlilegt að dómstólar geti endurskoðað ákvarðanir ríkissaksóknara. Sú leið er því til staðar í dag. Hér er verið að búa til undarlega leið. Hér er verið að fela dómsmrh. að hann komi inn í atburðarásina.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég átti satt best að segja ekki von á að menn hefðu hugarflug til að koma fram með hugmyndir af þessum toga árið 2001. Í ljósi allrar þeirrar þróunar sem hér hefur orðið, þó ekki sé horft nema 15 ár aftur í tímann frá því að frægur reiðhjóladómur endaði á borðum Mannréttindadómstóls Evrópu, hefur öll þróun verið í rétta átt. Hún hefur öll verið til að tryggja og treysta rétt almennings í samskiptum við ríkisvaldið. Þannig á það að vera því að mikið vald er falið í ríkisvaldinu. Mikið vald er falið í handhöfn ríkisvaldsins og þegar einstaklingum er falið þetta vald þá þurfa þeir að vinna eftir vel ígrunduðum og skynsömum reglum. Það þarf að setja umgjörð um þetta vald. Þannig hefur öll þróun á þessu sviði verið undanfarin 15 ár þar til sú hugmynd sem hér kemur fram lítur dagsins ljós.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá virðist þetta mál ekki vera stórt í sniðum við fyrstu sýn. Þeim er hér stendur leist ekkert illa á það þegar það kom hér fram og lýsti því yfir. Við nánari skoðun kom á daginn hvílík fásinna það er að ætla sér að taka hluta af ákæruvaldinu og fela það hæstv. dómsmrh.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig á því stendur að ég tel frv. sem hér hefur verið lagt fram þess eðlis að við skoðun eru það mikil vonbrigði að svona hugmyndir skuli enn þá vera á kreiki árið 2001. Mér finnst það mjög verðugt umhugsunarefni að dómsmálayfirvöld séu tilbúin til að breyta því kerfi sem við höfum haft hér lengi, að sjálfsögðu með sínum göllum eins og öll önnur mannanna verk. En markmiðið kerfisins hefur verið skýrt, þ.e. sjálfstætt ákæruvald sem lýtur ekki forræði stjórnmálamanna. Þetta er algert grundvallaratriði. Hér er vegið að þessu sjálfstæða ákæruvaldi.

Ég vona, virðulegi forseti, að menn beri gæfu til að skoða þetta mál ögn frekar. Ég trúi því að hægt sé að lenda þessu máli á annan hátt en hér er lagt upp með. Ég trúi því, sé vilji til að fara þessa leið, að hægt sé að ná saman um að hæstv. dómsmrh. hafi ekki sjálfdæmi um hvort rannsókn hefjist á meintri refsiverðri háttsemi þar sem sök er fyrnd.