Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 15:57:33 (6892)

2001-04-26 15:57:33# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki alveg sjálfgefið að átta sig á því hvað hv. þm. var að fara. Ég held þó að ég hafi náð einhverju af innihaldinu og skal þá reyna að útskýra það.

Í grg. kemur fram að þau tilvik kunni að koma upp þar sem nauðsynlegt sé að endurskoða þessa ákvörðun. Það er fráleitt að dómsmrh., sem situr um tiltekinn skamman eða langan tíma, hvaða bakgrunn sem hann hefur, hafi einhverja pólitíska möguleika á geðþóttaákvörðun, jafnvel að taka ákvörðun gegn sínum pólitísku andstæðingum, um að taka upp mál af þessum toga.

Ef málið kemur fyrir Alþingi þá er það rætt í þaula. Þá er það ekki ákveðið einhvers staðar í lokuðum herbergjum eða ákvörðun eins manns, heldur rætt í þaula. Þá skal heldur ekki gleyma því að Alþingi er æðsta stofnun þjóðarinnar. Það er þá kannski enginn annar sem getur tekið ákvörðun um að fella úr gildi ákvörðun þess sem er handhafi ákæruvalds hverju sinni.

Ég ætla ekki að bera saman, virðulegi forseti, ákvörðun sem er tekin fyrir opnum tjöldum og fær lýðræðislega umræðu á hinu háa Alþingi við að þetta vald sé falið einstökum stjórnmálamanni. Ég spyr bara hv. þm., af því að hann kemur úr Sjálfstfl.: Er þetta hugmyndafræði Gunnars Thoroddsens og Bjarna Benediktssonar heitins eða er hún bara fyrir bí í flokknum?