Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:02:15 (6895)

2001-04-26 16:02:15# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni var tíðrætt um þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við. Það er einmitt málið. Þau lönd sem við berum okkur saman við hafa ekki þessa heimild í lögum um meðferð opinberra mála. Það er einmitt sérstakt við þetta mál. Þetta er mjög sérstakt tilvik. Af hverju var þetta sett inn í lög um meðferð opinberra mála á sínum tíma? Það var af því að talið var að nokkuð mikil þekking væri hjá ríkissaksóknara til þess að meta hvort það ætti að rannsaka mál. Þetta snýst ekki um hefðbundið vald og ákvörðun ríkissaksóknara. Við erum búin að margfara yfir það.

Ríkissaksóknari hefur tvö meginhlutverk. Í fyrsta lagi að ákveða hvort ákæra eigi í máli og í öðru lagi að rannsaka mál ef líklegt er að þau leiði til ákæru. Ríkissaksóknari hefur ekki hingað til, svo að ég viti, hafið rannsókn á máli sem hann telur ekki líklegt að leiði til ákæru. Þarna er grundvallarmisskilningur á ferðinni hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Það er á engan hátt verið að ógna sjálfstæði ríkissaksóknara. Það ber að varðveita mjög vel. En það er fráleitt að halda að verið sé að ógna því, herra forseti.

Hv. þm. segir í nefndaráliti sínu að það sé mjög vandasöm ákvörðun að ákveða að rannsaka mál þar sem sök er fyrnd, m.a. út af því að það sé hugsanleg aðför að æru manna. Það kann vel að vera. En það er fráleitt að halda því fram að ákvörðun um rannsókn jafngildi sakfellingu. Það er líka fráleitt að halda því fram. Því spyr ég: Er þá æru manns betur borgið með því að almennar rannsóknarnefndir ákveði að fara með rannsókn mála? Hvað með æruna þá?