Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:04:28 (6896)

2001-04-26 16:04:28# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkrar umsagnir bárust til allshn. Umsögn barst frá Dómarafélagi Íslands, frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, frá lögreglustjóranum í Reykjavík, frá dómstólaráði, frá Sýslumannafélagi Íslands og frá ríkissaksóknara. Allar þessar umsagnir, virðulegi forseti, taka það upp að hér sé vegið að sjálfstæði ákæruvaldsins. Allar þessar umsagnir taka það upp að ákæruvaldinu sé betur fyrir komið hjá ríkissaksóknara en að fela dómsmrh. þennan þátt. Á það bendir hver og einn einasti. Af hverju leyfir formaður allshn. sér, hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir, að koma upp og halda því fram án þess að færa fyrir því rök að hér sé ekki vegið að sjálfstæði ákæruvaldsins? Er hv. þm. kannski í alvöru að halda því fram að ákæruvaldið sé ekki annað en útgáfa ákæru? Er hv. þm. að reyna að segja þetta? (Gripið fram í.) Hvað er hv. þm. að reyna að segja, virðulegi forseti, og hvað getur hv. þm. sett fram sem hrekur hverja einustu umsögn helstu sérfræðinga þjóðarinnar á þessu sviði? Ég held að við hljótum að gera ríka kröfu til þess að meiri hlutinn sannfæri okkur um annað.

Af því að hv. þm. nefndi líka að þetta væri í öðrum lögum þá get ég alveg tekið undir það, enda gera hugmyndir okkar, samkvæmt þeirri brtt. sem við höfum lagt fram, ekki ráð fyrir lögreglurannsókn. Það er kjarni þessa máls.