Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:08:58 (6898)

2001-04-26 16:08:58# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:08]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður á í erfiðum og vondum málum eru útúrsnúningar oft einfaldastir og bestir af því að menn geta ekki flutt fram rök fyrir máli sínu.

Virðulegi forseti. Ég vitnaði áðan í Gunnar Thoroddsen heitinn en hann sagði m.a. að ef maður væri ákærður fyrir afbrot, jafnvel þótt hann yrði sýknaður að lokum, þá gæti sakarrannsóknin ein haft geigvænleg áhrif.

Virðulegi forseti. Tillaga okkar sem við höfum lagt hér fram er þess eðlis að í fyrsta lagi hafi dómsmrh. ekki sjálfdæmi um slíkar ákvarðanir, heldur að slíkar ákvarðanir verði teknar á Alþingi eftir umræðu þar.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er kjarninn í tillögu okkar sá að ekki er um lögreglurannsókn að ræða ef sú forsenda er ekki til staðar að grunur leiki á, gögn hafi verið lögð fram eða vitneskja liggi fyrir um að refsiverð háttsemi hafi verið framin. Þessar forsendur eru ekki til staðar og því er slík rannsókn sem við leggjum til hér allt annars eðlis og dregur algerlega frá þá vankanta sem eru á því að fela þetta vald pólitískt kjörnum fulltrúum sem sitja til skamms eða langs tíma eftir atvikum.