Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:22:39 (6900)

2001-04-26 16:22:39# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að koma nokkrum sjónarmiðum að í þessari umræðu, 2. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála en ég var beðin um að vera viðstödd umræðuna. Ég vil byrja á því að rifja það upp að þegar ég mælti fyrir því frv. sem er til umræðu, þá fagnaði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson frv. og sagði gott að það væri komið fram. Nú virðist hann hafa skipt um skoðun og er því andvígur. Mér kemur það hins vegar ekki á óvart að hv. þm. sjái ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um þau sinnaskipti.

Ég tel frv. hins vegar enn í fullu gildi. Ég tel mjög til bóta að hægt sé að kæra ákvörðun ríkissaksóknara um synjun á rannsókn til ráðherra þegar sérstaklega stendur á eins og nánar kemur fram í frv. Ég er einnig samþykk þeim breytingum sem meiri hluti hv. allshn. leggur til.

Ég er sannfærð um að nauðsyn geti borið til að hafa þá kæruheimild sem frv. fjallar um og að fleiri geti komið að því mati hvort ríkir almanna- eða einkahagsmunir mæli með rannsókn en ríkissaksóknari einn, með öðrum orðum að málið geti fengið skoðun öðru sinni.

Meginreglan er sú að ákvörðun um rannsókn máls sætir endurskoðun hjá æðra settu stjórnvaldi en það á ekki við í þeim sérstöku tilvikum þegar saksókn verður ekki við komið en ríkir almanna- eða einkahagsmunir mæla með því.

Samkvæmt núgildandi lögum fer aðeins einn aðili með ákvörðunarvald í þessum efnum en með lagabreytingunni verður mögulegt að kæra slíka ákvörðun. Frv. felur því í sér nauðsynlegar og sjálfsagðar reglur um endurskoðun ákvarðana innan stjórnkerfisins.

Því hefur verið haldið fram í nál. minni hlutans að með frv. sé vegið að sjálfstæðu ákæruvaldi í landinu. Það er auðvitað fráleitt. Í 4. mgr. 66. gr. er kveðið á um heimild til að rannsaka mál þótt refsingu verði ekki við komið ef ríkir almanna- eða einkahagsmunir mæla með því. Ákæruvaldið höfðar ekki mál á grundvelli slíkrar rannsóknar og því varðar sú kæruheimild sem hér er lagt til að verði lögfest aðeins mál þar sem reynir ekki á beitingu ákæruvalds.

Þau mál sem réttlæta beitingu þess ákvæðis sem hér er um að ræða hljóta eðli málsins samkvæmt að vera allsérstök. Í reynd er um að ræða mál þar sem ríkir almannahagsmunir krefjast þess að fram fari rannsókn.

Lengi hefur verið rætt um ákveðna þætti svokallaðra Guðmundar- og Geirfinnsmála og ýmis þau álitamál sem ýmsir telja enn óupplýst í því máli. Sú lagaheimild sem hér er um að ræða gefur kost á því að raunveruleg rannsókn fari fram á slíkum málum. Það segir sig sjálft að slík tilvik eru afar fátíð og tengjast ekki venjulegri starfrækslu ákæruvalds í landinu. Þetta tel ég rétt að undirstrika.

Á síðasta áratug voru gerðar stórfelldar breytingar á réttarfari, dómstólaskipan og skipulagi löggæslu ákæruvalds hér á landi sem leysti af hólmi skipan sem orðin var úrelt. Þessar breytingar horfðu til framtíðar en engu að síður virðist sem nokkrar afturgöngur frá tímanum fyrir breytingar séu enn á sveimi. Þær afturgöngur er nauðsynlegt að kveða niður svo að dómstólar okkar og réttarfar geti notið fulls trausts með þjóðinni.

Hér hefur verið bent á að nokkur gagnrýni hafi komið fram um efni frv. frá nokkrum umsagnaraðilum. Breytingar hafa m.a. verið gerðar af hálfu hv. allshn. til að koma til móts við þessar ábendingar. Frv. er nú takmarkað við þau tilvik þegar ríkissaksóknari synjar um rannsókn tiltekins máls. Ég ítreka þá skoðun mína, virðulegi forseti, að samþykkja eigi frv. með þeim breytingum sem meiri hluti hv. allshn. vill gera á því.

Í nál. minni hlutans er því haldið fram að eina úrræði þess sem telur að sér vegið með rannsókn máls á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem hér um ræðir sé ærumeiðingarmál á hendur ráðherra. Þetta er afar sérkennileg fullyrðing. Í fyrsta lagi er ekki verið að fjalla um rannsóknarheimildina sjálfa. Hún er fyrir hendi og er ekki úr vegi í þessu samhengi að minnast þess að hún var studd m.a. af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni. Þeir eru hins vegar andsnúnir málinu núna og beita fyrir sig röksemdum sem allt eins hefðu átt við um það frv. sem við samþykktum fyrir nokkrum missirum. Ef ég man rétt samþykkti stór meiri hluti hv. þm. þessar lagabreytingar, jafnvel 48 talsins.

Í öðru lagi er ljóst að ráðherra fer ekki með rannsókn málsins heldur verður skipaður sérstakur saksóknari til þess samkvæmt frv. Ráðherra getur því ekki orðið aðili að málinu enda fer hann ekki með framkvæmd rannsóknarinnar.

Þá hefur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson velt sér upp úr því og bent á að slæmt sé að stjórnmálamaður fari með þetta vald. Ég skil orð hans svo sem hann telji að hætta sé á misnotkun á valdi.

Það frv. sem hér um ræðir veitir þrönga heimild í sérstæðum málum til að kæra synjun um að rannsókn fari fram. Mat ráðherrans á að byggjast á því hvort almannahagsmunir krefjist þess að mál sé rannsakað. Ég tel mjög sérkennilegt ef hv. þm. Samfylkingarinnar vilja ekki eða sjá ekki ástæðu til að fjalla um almannahagsmuni í störfum sínum. Ég tel mjög eðlilegt að ráðherra, sem ber beina ábyrgð gagnvart þjóð og þingi, taki ákvörðun um það hvort mál sem varða almannahagsmuni séu rannsökuð eða ekki. Hins vegar er alveg ljóst að misbeiti ráðherra því valdi missir hann traust þingsins, trúnað kjósenda sinna og er ekki vært í embætti.

Þá hefur líka verið minnst á að það væri heppilegri leið og eðlilegri að setja sérlög í þessu dæmi og hv. þm. Samfylkingarinnar telja meira við hæfi að setja sérlög í hvert sinn sem rannsókn skal fara fram í máli af því tagi sem umrætt frv. fjallar um. Í nál. minni hlutans segir:

,,Ef vilji hefur staðið til þess að þetta tiltekna mál`` --- þarna er vísað í þátt af Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem að undanförnu hefur verið til skoðunar --- ,,yrði tekið sérstaklega fyrir hefði verið miklu eðlilegra að setja um það sérlög ...``

Ef Alþingi ákveður að láta rannsaka mál sem ríkissaksóknari hefur hafnað er sjálfstæði hans þá ekki skert? Á Alþingi að taka að sér störf sem æðra stjórnvald?

Virðulegi forseti. Ég vil fá að víkja nokkuð að þeirri brtt. sem hér hefur komið fram fram frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni. Um hana hefur verið nokkuð fjallað þannig að ég ætla ekki að fara með efni hennar en í tillögunni er lagt til að þingskipaðri nefnd sé falið vald sem aðeins lögregla og saksóknari hafa samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Ef þessi tillaga yrði samþykkt væri hún í algerri andstöðu við meginreglu íslensks réttarfars og þingræðishefða.

Hv. tillöguflytjendur hafa vakið máls á því að í umsögn hafi komið fram athugasemdir við frv., reyndar í nokkrum umsögnum. Öll þau rök sem þar koma fram eiga því jafnt við um þessa brtt. hv. þm. og því spyr ég: Er hægt að byggja á umsögnum allshn. í öðru orðinu en hafna því í hinu?

Það er sérkennilegt að hér sé sett fram brtt. af þessu tagi af hv. flm. þar sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur talað svo mikið um sjálfstæði ríkissaksóknara en telur síðan sjálfsagt að Alþingi taki að sér nýtt hlutverk, þ.e. rannsókn opinberra mála. En hingað til hefur það komið fram að hv. þm., sem hafa lagst gegn því frv. sem hér er til umræðu, telja að rannsókn opinberra mála sé óæskilegur hluti ákæruvaldsins.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég undirstrika að í þessu frv. felst engin breyting á reglulegri starfsemi ákæruvaldsins. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Hér er um að ræða beitingu lagaheimildar til opinberrar rannsóknar sem var nýlega samþykkt og varðar sérstök tilvik sem koma ekki til meðferðar dómstóla en varðar samt mikla almanna- eða einkahagsmuni. Með frv. er því ekki haggað við grundvallarreglunni um sjálfstætt ákæruvald. Öll mál sem lotið hafa endanlega ákvörðunarvaldi ríkissaksóknara á síðustu áratugum verða eftir sem áður hjá sjálfstæðu ákæruvaldi. Því er ekki aðeins rangt að halda því fram að verið sé að breyta því fyrirkomulagi sem Bjarni heitinn Benediktsson beitti sér fyrir að komið var á heldur er það hreinn útúrsnúningur.

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að láta þessi sjónarmið koma fram við 2. umr. málsins. Ég tel að um mikilvægt mál sé að ræða. Ég vænti þess að við fáum góðar umræður um þetta frv. og því verði vel tekið á hinu háa Alþingi og verði að lokum samþykkt.