Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:44:59 (6906)

2001-04-26 16:44:59# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson telur að kjarni málsins í þessari brtt. sé að þetta mál sé ekki tengt pólitískum ráðherra þá get ég ekki stillt mig og verð við þetta tækifæri að fá að rifja upp orð hans við 1. umr. um þetta frv. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Ég held að almennt sé mjög gott að hægt sé að kæra ákvarðanir ríkissaksóknara til dómsmrh. og afgreiða á þann hátt sem þessi breyting kveður á um, þ.e. settur yrði sérstakur ríkissaksóknari í þeim tilvikum sem ráðherra ákveður að breyta ákvörðun ríkissaksóknara.``

Hann veltir líka upp þeim möguleika að skoða hvort ríkissaksóknara beri ekki að gefa út á hverju ári bók eða skýrslu um það hvenær hann hefur fellt niður mál og af hvaða ástæðum og segir seinna í sinni ræðu:

,,Ég held líka að í því fælist mikið aðhald fyrir ríkissaksóknara.``

Virðulegi forseti. Síðan segir hv. þm. í lokin:

,,Meginniðurstaða mín, virðulegi forseti, er sú að ég fagna þessu frv. Mér finnst gott að það skuli vera komið fram.``

Ég gat ekki látið hjá líða að minnast á þessi orð hv. þm. Að sjálfsögðu getur hann skipt um skoðun eins og aðrir í þessum sal. Ég hygg þó að hv. þm. sé sammála mér, og fleiri hv. þingmönnum sem hér hafa rætt um þetta mál, um að virkilega sé ástæða til að veita ákveðið frávik þegar um er að ræða mjög sérstæð mál sem þarf að upplýsa.