Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:48:27 (6908)

2001-04-26 16:48:27# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér koma eilítið á óvart þau stríðu viðbrögð hæstv. dómsmrh. og raunar stjórnarliða allra sem hér hafa tekið til máls í þessari umræðu vegna þeirrar brtt. sem ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson höfum lagt fram. Í því sambandi notaði hæstv. ráðherra orðið ,,afturgöngur`` og ég bið hana að gera nánari grein fyrir því á hvaða ferðalagi hún var í þeim efnum.

Það eru þrjú meginatriði sem ég heyri ekki betur en hv. þm. séu allir sammála um, þ.e. það eigi að vera til staðar málskotsréttur, afskaplega þröngur. Það eigi að varðveita sjálfstæði ríkissaksóknara eins og nokkur kostur er og það eigi að gæta hlutlægni og víðsýni þegar ákvörðun er tekin um sjálfstæða rannsókn af hálfu annars aðila en ríkissaksóknara og við erum að leita leiða hvernig því verði best fyrir komið. Hvaða leiðir er bent á sem valkost við ræðu hæstv. dómsmrh. sem uppfyllir nákvæmlega öll þau skilyrði sem ég nefndi áðan? Það að dómsmrh. verði ekki einn í för varðandi þessa ákvörðun sína sem hlýtur ævinlega að vera mjög stór og alvöruþrungin. Það má auðvitað velta vöngum yfir og fá til þess styrk og stuðning ef hann er til staðar á hinu háa Alþingi. Ég hélt satt að segja að hæstv. dómsmrh. mundi fagna því alveg sérstaklega að verið væri að gefa undir fótinn með það að við þessar sérstöku undantekningaraðstæður væri Alþingi tilbúið að veita henni atbeina. Af því að hæstv. ráðherra nefndi sjálf Nørrebro-málið, þá var það nákvæmlega með þeim hætti sem menn gengu til verka á þeim bæ.

Í öðru lagi verður hæstv. ráðherra að glöggva sig á því að það sem hún kann að meta sem almannahagsmuni getur vel verið að aðrir í þessum sal geri ekki. Hér er um túlkunaratriði að ræða sem mikilvægt er hverju sinni að séu skoðuð og skilgreind og rædd í þaula. Sá er tilgangur þessarar brtt. Ég bið hæstv. ráðherra að lesa brtt. vandlega áður en hún heldur langar ræður um hana.