Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 17:02:41 (6912)

2001-04-26 17:02:41# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hygg að það sé ekkert launungarmál að tilurð þessa frv. sé málarekstur nokkurra einstaklinga sem telja sig hafa verið órétti beitta við rannsókn, meðferð og úrlausn svokallaðra Guðmundar- og Geirfinnsmála. Það kemur raunar skýrt fram í fylgiskjölum nál. á þskj. 1100, þ.e. með minnihlutaáliti hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, í bréfi ráðuneytisins til Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, en í niðurlagi þess segir, með leyfi forseta:

,,Á hinn bóginn vill ráðuneytið greina yður frá því að dómsmálaráðherra hefur í hyggju að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála þar sem lagt verður til að unnt verði að skjóta til ráðherra ákvörðun ríkissaksóknara skv. 4. mgr. 66. gr. Verði umrætt frumvarp að lögum mun ráðuneytið taka mál skjólstæðings yðar til meðferðar að eigin frumkvæði á grundvelli breyttra laga.``

Það er augljóst af þessu og raunar fjölmiðlaumfjöllun um það mál að málarekstur örfárra einstaklinga sem telja að brotið hafi verið á rétti sínum í þessum tilteknu málum er kveikjan að þessu frv., ekki síður eftir að fyrir lá ákvörðun ríkissaksóknara þrátt fyrir auknar heimildir honum til handa.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að halda því mjög ákveðið til haga, af því að hæstv. dómsmrh. taldi ástæðu til að leggja hér lykkju á leið sína, og rifja upp að fyrir nokkrum missirum var samþykkt frv. þar sem ríkissaksóknara voru veittar auknar heimildir til að hefja sérstaka rannsókn þótt fyrning væri til staðar. Hann hefði með öðrum orðum getað tekið þetta tiltekna mál upp undir þeim nýbreyttu lögum, en gerði þó ekki. Í þessum sal var enginn ágreiningur um þær auknu heimildir honum til handa. Málið er því í eðli sínu alls óskylt því, enda hefur helsta gagnrýnin verið á hvar þetta vald eigi að liggja, sem ég mun ræða hér ítarlegar á eftir. Það er rétt að halda meginatriðum rækilega aðskildum í þessu máli og það ætla ég að reyna að gera þó að stundum reynist það erfitt.

Ég staldraði hér við kveikjuna að þessum málarekstri. Ég hygg að þannig sé með flesta í þessum sal og samfélaginu öllu að á þeim 25 árum sem liðin eru frá þessum atburðum hafi margir á mínu reki og eldri fylgst með síendurtekinni umræðu um málið. Stundum hafa komið fram nýjar upplýsingar, heimildarkvikmyndir og fjölmiðlaumfjöllun af ýmsum toga kveikt, ef svo mætti segja, nýja elda og vakið upp nýjar spurningar. Um það er ekkert að segja og ef spurt yrði hér í almennri skoðanakönnun hvort réttmætt væri að skoða alla enda og kanta Guðmundar- og Geirfinnsmálsins upp á nýtt mundu 90% þjóðarinnar sennilega segja já. Fyrir liggur ljós vilji a.m.k. eins fórnarlambs í þessu máli sem hefur rakið það mál sem ég gerði að umtalsefni og vitnaði í því sambandi í bréf dómsmrn.

Herra forseti. Við skulum hins vegar stíga varlega til jarðar í þessu máli eins og öllum öðrum. Ég þykist þess fullviss að fórnarlömbin í þessu máli fagni því ekki endilega öll að enn og aftur eigi að kveikja elda, vekja upp gamlar spurningar og ýfa upp gömul sár sem sennilega gróa aldrei. Ég er ekki handviss um að öll þau fórnarlömb sem þar eiga svo sannarlega um sárt að binda --- þá er ég ekki síst að vísa til þeirra sem að ósekju voru hnepptir í gæsluvarðhald um langt skeið, voru hreinsaðir af þeim ósanna áburði en hafa auðvitað aldrei losnað við þennan stimpil --- fagni því sérstaklega að enn og aftur eigi að rifja upp og rekja nöfn þeirra og tengja enn og aftur að ósekju við þetta grafalvarlega sakamál sem margir telja að aldrei hafi verið til lykta leitt og muni aldrei verða.

Hér er auðvitað ekki einfalt mál á ferðinni. Ég byrjaði ræðu mína á þessum vangaveltum til að undirstrika að jafnvel þetta mál, sem ég hygg að mikill meiri hluti þjóðarinnar vilji að verði kannað á nýjan leik, er ekki yfir allan vafa hafið þegar menn skoða málin í kyrrð og friði. Ég er heldur ekki viss um það, en það er bara mín tilfinning og nær ekkert lengra, að eftir 25 ár takist að varpa fram nýjum upplýsingum sem leiði í ljós hinn stóra sannleik í málinu. Það er í sjálfu sér annað mál en við skulum samt vera viðbúin því, af því að hæstv. dómsmrh. hefur fyrir fram veitt einum málsaðila þessa máls fyrirheit um að sérstök rannsókn fari fram á þeim álitaefnum sem hann hefur vakið athygli á vegna málsins og það verði þá væntanlega fyrsta mál þessarar tegundar, að að þessu frv. samþykktu er ég ekki viss um að hann verði einn í för í því sambandi. Það er eins og mig reki minni til þess að fleiri aðilar hafi óskað eftir ýmsum sértækum athugunum á ýmsum tilteknum þáttum þessa máls. Ég fæ ekki séð að hæstv. dómsmrh. verði stætt á að hafna slíkri beiðni, komi hún fram, þegar hún hefur nú þegar, fyrir samþykkt þessa frv., gefið einum málsaðila fyrirheit um að skoðaðir verði sérstakir þættir þess.

Af samþykkt þessa frv. mun leiða, herra forseti, óumdeilanlega hygg ég, að viðamikil og heildstæð rannsókn hljóti að fara fram á öllum þáttum málsins, ekki eingöngu þætti þess aðila sem ritaði hinu háa ráðuneyti bréf og hefur gert nokkrum sinnum og er svarað þann 5. des. árið 2000. Þessu vildi ég vekja máls á.

Herra forseti. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu sem ég bendi á alvöru þessa máls. Fyrningar eru ekki til orðnar í íslenskum lögum að tilefnislausu, þar eru auðvitað vissar ástæður að baki. Það er heldur ekki að ástæðulausu sem ég og fleiri hv. þm. hafa goldið varhug við þeirri hættu að þröng pólitísk sérsjónarmið ráði ríkjum þegar kemur að heimild til rannsóknar af þeim toga sem hér um ræðir.

Við þekkjum dæmi þess, herra forseti, úr íslenskri stjórnmálasögu að öllum tiltækum meðulum hafi verið beitt. Við skulum ekki neita að horfast í augu við það. Ég er auðvitað ekki að vísa til hæstv. núv. dómsmrh. en hér á að veita einum handahafa framkvæmdarvaldsins, dómsmrh., altæka heimild til að meta í hvert og eitt skipti hvenær almannahagsmunir séu það ríkir að hans mati að fella beri úr gildi fyrri ákvörðun ríkissaksóknara og hefja sértæka rannsókn. Hins vegar er ekki víst að aðrir dómsmrh. hafi þá yfirsýn sem núv. hæstv. dómsmrh. væntanlega hefur og ég vona að hún hafi. Við megum ekki hugsa þetta mál í núinu. Við verðum ekki síður að huga að málinu upp á framtíðina, þ.e. hvernig með þetta vald verði farið.

Hér er því haldið fram og hver undirstrikar það á fætur öðrum að það beri að fara varlega með málskotsrétt af þessum toga. Um það er almenn sátt og almennt samkomulag á hinu háa Alþingi í dag. En stendur það í frv., sem verður væntanlega að lögum hér á næstu vikum, þegar þeir sem á eftir okkur koma eftir fimm, tíu ár eða tuttugu ár skoða þessa heimild? Það er algerlega á hendi þess ráðherra sem situr hverju sinni hvernig með verður farið.

Hér hefur verið dómsmrh. sem margar bækur hafa verið skrifaðar um, mjög umdeildur, pólitískt umdeildur, sem flokksbræður og -systur núv. dómsmrh. töldu að hefði farið offari í starfi sínu. Hann hafði einmitt þessa heimild sem breytt var nokkrum áratugum síðar. Þess vegna rifja ég það upp, herra forseti, að hin pólitíska saga segir okkur að fara varlega og vanda mjög vel verklagið og leikreglurnar sem vinna á eftir í þessu sambandi.

Ég vil hins vegar hnykkja á þeim þremur grundvallarþáttum sem ég nefndi hér í stuttu andsvari, sem ég tel kjarnaatriði þessa máls. Ég fæ ekki betur séð annað en að um það sé tiltölulega góð sátt að til verði málskotsréttur þrátt fyrir hinar auknu heimildir sem ríkissaksóknari hefur fengið hér með samþykktum lögum frá hinu háa Alþingi. Í öðru lagi er mikilvægt að þessum málskotsrétti verði beitt afskaplega varlega og í undantekningartilfellum. Í þriðja lagi þurfa hlutlægni, víðsýni, sanngirni og almannahagsmunir, svo ég gleymi nú ekki því hugtaki, að vera ráðandi þegar ákvarðanir af þessum toga eru teknar.

[17:15]

Þá er það hlutverk okkar, herra forseti, að koma þessum markmiðum saman í lagatexta þannig að nokkuð tryggt sé í núinu og framtíðinni að framkvæmd laganna verði eins og vilji Alþingis stendur til. Því vil ég staldra fyrst og síðast við þau skilyrði sem til staðar þurfa að vera og einkanlega þetta hugtak að almannahagsmunir kalli á það í frv. hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutans, að dómsmrh. meti það svo að almannahagsmunir krefjist þess og kalli á það að hann þurfi að fella úr gildi fyrri ákvörðun ríkissaksóknara að láta hefja sjálfstæða rannsókn.

Það er auðvitað meira en svo --- stórt orð Hákot --- að það sé nokkur hér inni sem sé handhafi sannleikans, þess sannleika að geta fullyrt hverjir eru almannahagsmunir og hverjir ekki. Um þetta deilum við gjarnan daglangt og höfum ýmis sjónarmið til þess hvenær almannahagsmunum er ógnað og hvenær er farið á svig við þá. Um það snýst í raun pólitík og hefur ævinlega gert, um mismunandi mat stjórnmálaflokka og stjórnmálaafla og stjórnmálastefna á það hvernig almannahagsmunum verði best þjónað. Hér erum við, herra forseti, ekkert minna en að ræða grundvallaratriði stjórnmálanna. Af þeim ástæðum teljum við mjög mikilvægt að hæstv. dómsmrh. hverju sinni fái nauðsynlega breidd, pólitíska breidd að baki þeim ákvörðunum sem hún kann að taka í þessu stóra máli.

Hér var því varpað fram af hv. þm. Ástu Möller, ef ég man rétt, að á því væri enginn eðlismunur að hið háa Alþingi kæmi að þessum málum með staðfestingu sinni eða synjun á þáltill. um sértæka rannsókn sem kæmi frá hæstv. dómsmrh. og hinu að dómsmrh. tæki hana bara einn og sér. Enginn eðlismunur væri á þessu.

En auðvitað er á þessu algjör grundvallarmunur. Hv. þm. nefndi að í báðum tilvikum væri um pólitíska ákvörðun að ræða og vissulega er það svo. En í öðru tilvikinu er sú hætta fyrir hendi að ákvörðunin verði þröng flokkspólitísk og ekkert í þessum tillögutexta kemur í veg fyrir þá hættu, ekki eitt aukatekið atriði.

Hvað brtt. mína og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar varðar er tryggt að þröng flokkspólitísk sjónarmið og mat á almannahagsmunum eða málavöxtum hverju sinni komi aldrei til, það þurfi atbeina Alþingis, og væntanlega og vonandi í öllum tilvikum, þessum örfáu undantekningartilvikum, yrði um það nokkuð og þokkaleg sátt á hinu háa Alþingi. Kannski þó ekki.

Auðvitað er tilgangurinn sá, herra forseti, af því að við erum öll sammála um að hér sé um undantekningartilvik að ræða, sem þurfi að vanda mjög vel hverju sinni, þá erum við að lengja þessa leið. Við erum að lengja þetta ferli, gera það í fyrsta lagi opinbert með því að færa það inn í sali Alþingis, og í öðru lagi að hæstv. ráðherra sé gert hverju sinni að rökstyðja það fyrir fram kvitt og klárt hvaða sakarefni beri að rannsaka og einnig hitt hvernig beri að standa að þeirri rannsókn og hver eigi að gera það. Herra forseti. Ég ætla ekki hinu háa Alþingi það, eins og mér fannst bera á í áhyggjum nokkurra stjórnarþingmanna, að hér á hinu háa Alþingi ætli menn að gera út um hið umrædda mál og hér fari efnisumræða fram, djúp og endalaus, um hvað sé rétt og hvað sé satt í því efni sem ber að rannsaka. Ég ætla ekki hinu háa Alþingi það. En á þessu tvennu er auðvitað eðlismunur.

Ég vil líka rifja það upp, herra forseti, hvert er stjórnarskrárbundið hlutverk Alþingis. Jú, það er m.a. það að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í því sambandi hafa mörg frumvörp verið flutt og ég hef m.a. verið í hópi þeirra þingmanna sem hafa flutt frumvörp í þá veru að styrkja mjög verulega eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu, m.a. með rannsóknarnefndum, m.a. með því að nefndir þingsins, sérstakar eða fastar, haldi fundi í heyranda hljóði og að með ýmsu móti sé þetta eitt af grundvallarhlutverkum Alþingis, eftirlit með framkvæmdarvaldinu, styrkt mjög til muna. Þessi málatilbúnaður okkar tekur dálítið mið af þessum málflutningi, því er ekkert að leyna. Við viljum að Alþingi, æðsta stofnun þjóðarinnar og ein af þremur stoðum ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið komi að þessari stóru ákvörðun.

Ég vil, meðan ég man, spyrja hæstv. dómsmrh. hvað það sé í raun og sanni við þetta fyrirkomulag sem hún telji að hamli meðferð máls. Hvaða stóru gallar eru á því að hæstv. ráðherra komi með tillögu um þær fyrirætlanir, sem verða væntanlega örfá tilfelli, ef marka má yfirlýsingar hans og raunar fleiri hv. þm.? Hvað er það sem gerir það að verkum að sú leið er svona erfið og slæm? Finnst hæstv. ráðherra verra að njóta atbeina Alþingis við ákvarðanir af þessum toga eða vill hæstv. ráðherra fremur hafa það, eins og manni finnst stundum, hjá framkvæmdarvaldinu að það fari sínu fram og svo geti venjulegir hv. þm. rexað og röflað að vild? Ég spyr: Er eitthvað sem mælir á móti því að hæstv. ráðherra leiti staðfestingar og heimildar Alþingis í þau örfáu skipti sem þarf að beita þessum sértæku úrræðum? Hvaða gallar eru á því fyrirkomulagi? Ég spyr.

Um það hefur verið nokkuð rætt að mikilvægt sé að varðveita sjálfstæði ríkissaksóknara og um það held ég að allir séu í orði kveðnu einnig sammála. Það er hins vegar þannig að ef úrskurður hans er ekki endanlegur og því fyrirkomulagi verður breytt þá verður sjálfstæði hans ekki eins mikið og áður. Um það þarf auðvitað ekkert að deila. Á hinn bóginn eru þingmenn yfirleitt, heyrist mér, nokkuð sammála um að nauðsyn brjóti lög, þ.e. að þessi málskotsréttur þurfi þrátt fyrir það að vera til staðar þótt það kunni ganga að einhverju leyti á svig við þetta sjálfstæði ríkissaksóknara.

En hvernig gerum við það með sársaukaminnstum hætti? Þá er það næsta verkefnið. Og við, tveir hv. þm., höfum reynt að gera það þannig að fyrirbyggja og tryggja að það þurfi viðurhlutamikinn undirbúning, það þurfi ítarlega og eðlilega meðferð á hinu háa Alþingi áður en sú stóra ákvörðun verður staðfest að gengið verði gegn ákvörðun ríkissaksóknara, fremur en að það verði einkaákvörðun hæstv. dómsmrh. hverju sinni, tekin bak við luktar dyr, væntanlega með embættismönnum sínum. Á þessu er auðvitað grundvallarmunur og alger eðlismunur.

Þriðja atriðið, sem er auðvitað ekki veigaminnst í þessu sambandi, að brtt. okkar hv. þm. gerir ráð fyrir almennri rannsókn. Í tillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir áframhaldandi lögreglurannsókn. Á því er líka veigamikill munur. Engu að síður viljum við tryggja og gerum það hér í tillögutextunum og frumvarpstextunum að þessi rannsóknarnefnd, skipuð þremur valinkunnum mönnum --- og vegna orða hæstv. dómsmrh. að það væri Alþingis að halda þessari rannsókn til haga og skipa þessa menn --- þá er það alger misskilningur. Í tillögutextunum er sérstaklega tekið fram að hæstv. dómsmrh. leggi fram þetta upplegg allt í sinni þáltill. sem hljóti staðfestingu eða synjun Alþingis, þannig að forræði málsins er eftir sem áður á hendi hæstv. dómsmrh. En Alþingi fer yfir málið, hefur eftirlit með því að rétt sé að verki staðið, synjar eða staðfestir, samkvæmt þeim hugmyndum sem liggja að baki í stjórnarskrá lýðveldisins.

Herra forseti. Við skulum horfa alveg þráðbeint á það að enda þótt við á hinu háa Alþingi við meðferð þessa máls segjum það hvert við annað að þessari heimild verði að beita í algjörum undantekningartilvikum þá er ég handviss um --- og ég bið hæstv. ráðherra núna að leggja við eyru --- að skrifstofa hæstv. dómsmrh. mun fyllast af fólki næstu daga og vikur sem í hönd fara eftir samþykkt frv. af þessum toga. Hún mun fyllast af fólki sem telur sig hafa verið órétti beitt á árum áður, fyrir áratugum, eða að rannsóknin hafi verið með þeim hætti að viðkomandi hafi ekki notið réttlætis. Ég skal fullyrða það hér og nú að hæstv. dómsmrh. fær erindi af þessum toga, ekki talin á fingrum annarrar handar, ekki talin á fingrum beggja handa, heldur í tugavís. Auðvitað reynir á í því sambandi, auðvitað mun reyna á því sambandi.

Ég er nokkurn veginn fullviss um að fljótlega renni einmitt upp það ljós fyrir hæstv. dómsmrh. að kannski væri það nú eftir allt saman betra fyrir hæstv. ráðherra sjálfan að fá stuðning og styrk frá hinu háa Alþingi við ákvarðanir sem hún kann að vilja taka í þá veruna. Ég er þess nokkurn veginn fullviss. Auðvitað kunna mál að vera þannig að þær ákvarðanir sem hæstv. ráðherra kann að taka í þessa veru verði umdeildar. Ég vakti máls á því í upphafi ræðu minnar, herra forseti, í þessum viðkvæmu Guðmundar- og Geirfinnsmálum, að þó að 90% þjóðarinnar vilji endurupptöku þeirra mála, þá er ég ekkert endilega viss um að allir aðilar málanna, sem eru sýknir allra saka sannanlega, vilji það endilega líka.

Það er ekkert augljóst í þessum málum sem hér um ræðir og við megum auðvitað gæta okkar á því, hv. alþingismenn, að gleyma okkur ekki í dægurþrasi dagsins. Ég sé að hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir er að ganga hér á dyr og ég vildi sérstaklega beina þessum orðum til hennar því að mér fannst þess gæta eilítið í umræðum um mjög svipað mál í gær þar sem við vorum að tala um glæpi og refsingu. Þetta kann að vera auðvelt í andartakinu af því að vindar blása þannig að auðveldast sé að láta undan því sem menn telja að almenningsálitið vilji hverju sinni, en þannig eiga hv. þm. auðvitað ekki að haga sér. Þeir eiga að reyna að horfa til allra átta og vera minnugir þess að lagasetning og ákvarðanir á hinu háa Alþingi munu hafa áhrif á alla. Ekki bara hina háværu, ekki bara þá sem ákveða fyrirsagnirnar í blöðunum, ekki bara þá sem velja viðmælendur hjá fréttastofunum, heldur á alla, háa og lága. Og ekki bara í augnablikinu heldur líka í framtíðinni.

[17:30]

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig vegna þess að umræðan fór dálítið í þennan farveg í gær. Sérstaklega er ég að fara yfir þetta hér, herra forseti, af því að hæstv. ráðherra gat ekki verið viðstaddur umræðuna og ég vildi ... (Gripið fram í: Í gær?) Gat ekki verið viðstaddur umræðuna í fyrradag og það gat hv. þm. Ásta Möller ekki heldur um þyngingu refsidóma í fíkniefnamálum. Var hennar saknað og hæstv. ráðherra sömuleiðis en það bar dálítið á því að menn ætluðu að skauta léttilega fram hjá alvöru málsins. Í þessari umræðu ber dálítið á því líka því mér heyrðist ekki betur en kjarni málsins í orðaskiptum stjórnarþingmanna og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar snúist um hvað hann sagði við 1. umr. málsins, að það sé orðið kjarnaatriðið í málinu. Það er auðvitað algert aukaatriði í málinu. Það sem máli skiptir er hvaða áhrif þessi lög hafa á samfélag okkar, á þá einstaklinga sem í því starfa og í því lifa og ekki bara í núinu heldur líka í framtíðinni. Þess vegna verðum við að gæta þess við lagasetningu að við horfum til þess hvernig framkvæmd þeirra verði háttað. Þess vegna hef ég dvalið eilítið við það, herra forseti, hvernig það geti þróast í fyrsta lagi í höndum hæstv. dómsmrh. og hvaða álitamál verða uppi þegar á hana reynir. Það er undir þeim formerkjum sem ég hef lagt á það áherslu. Það er ekki hennar vegna, hæstv. ráðherra, sem ég tel mjög mikilvægt að hún fái leiðbeiningar, stuðning eða andstöðu eftir efnum og ástæðum við þá ákvörðun sem hún hyggst taka í jafnveigaþungum málum og hér um ræðir. Ég segi veigaþungum af því að við erum öll sammála um að þetta hljóti að vera og eru vonandi algjör undantekningartilvik.

Herra forseti. Ég rifjaði upp að í pólitík fyrr og síðar hefðu menn notað ýmsar leiðir. Stundum hefur það komið fyrir í pólitískri orrahríð að menn hafa verið að kæra hver annan til lögreglunnar. Það hefur komið fyrir. Ég held að í flestum tilfellum hafi ríkissaksóknari eftir athugun málsins fellt slíkar ákærur niður. Ég man ekki eftir öðru, það kann þó að vera að mig misminni. Auðvitað er ekki hægt að útiloka að mjög flokkspólitískur dómsmálaráðherra vilji fara að vekja máls á einhverjum gömlum kærumálum af þessum toga og telji það vera sérstakt áhugamál af því að það henti í andartakinu vegna þess að vindarnir blása þannig og sjónvarpsstöðvarnar vilja það og fyrirsagnirnar eru svo góðar. Það getur vel hent. Við skulum því vanda okkur við þetta. Hvernig vöndum við það best? Eigum við ekki að trúa því, herra forseti, að Alþingi þjóðarinnar, við sem sitjum hér og erum kjörin til setu hér, séum það ankeri sem við eigum að treysta hvað best og mest á? Er það ekki kjarni málsins, herra forseti, að við höfum þá trú á okkur sjálfum, löggjafarvaldinu, að þegar sérstaklega ber að vanda til verka, eigi að kalla til atbeina Alþingis? Þegar eigi að hafa virkt eftirlit með framkvæmdarvaldinu, þá eigi Alþingi að koma þar að? Erum við ekki þeirrar skoðunar hvort sem menn eru í meiri hluta í núinu eða minni hluta? Ég rifja það upp, herra forseti, að það er ekki endilega þannig að það verði varanlegt. Þeir hlutir breytast líka.

Herra forseti. Mér hefur dvalist nokkuð við þetta mál og ég hef drepið á nokkur atriði þess. Ég get svo sem haft um það langt mál til viðbótar. Ég sé þó ekki ástæðu til þess. Mér hefur fundist og tel að við séum að ræða um þá skipan mála sem við teljum farsælasta og eðlilegasta í stjórnsýslu okkar að vissulega hefur okkur miðað vel á leið í því sambandi.

Ég vil rifja það upp, herra forseti, því að ekki er mjög langt síðan að skil á milli ákæruvaldsins, á milli lögreglurannsóknar og t.d. héraðsdómara, voru ákaflega óglögg og það þurfti raunar erlenda úrskurðaraðila til til að hreyfa okkur áfram í því máli en við gerðum nauðsynlegar breytingar á því. Ég held að það séu rétt um það bil 12 ár síðan. Hæstv. dómsmrh. man það sennilega betur en ég. Ég held að það hafi verið í tíð hæstv. dómsmrh. Jóns Sigurðssonar sem gerðar voru verulegar endurbætur og betrumbætur á því. Ekki mundi nokkrum manni koma það til hugar þegar maður segir yngra fólki frá því að ekki séu nema 10 eða 12 ár frá því að þetta var meira og minna saman súrrað, rannsóknaraðilar og héraðsdómarar, og er horft á mann eins og maður sé kjáni. Það er auðvitað mjög mikilvægt að við vöndum okkur ef við ætlum að stíga þetta skref sem um margt er einstætt og við finnum ekki mörg fordæmi fyrir í öðrum löndum. Þau eru þó til en þá frekar í þá veru sem brtt. okkar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar gerir ráð fyrir en ég hygg að sú leið sem lögð er til af meiri hlutanum, raunar með atbeina hv. þm. Ögmundar Jónassonar, eigi sér ekki mörg fordæmi og ég bið um að fá að heyra þau ef þau eru til staðar. Ég held einmitt að það hafi verið Mannréttindadómstóllinn, gott ef ekki var, sem þurfti að ýta okkur úr vör 1988--1989. Ég held að ég muni það alveg rétt og það og væri auðvitað ekki góð latína ef við fengjum aðrar athugasemdir af ólíkum toga þó úr þeirri áttinni. En við skulum vanda verkið og ég held að okkar málefnalega nálgun, okkar þingmannanna í brtt. sem hér liggur frammi, sé í þá veru að við viljum gjarnan stíga þetta skref en afskaplega varlega og gera það þannig úr garði að menn viti nákvæmlega upp á hár á hvaða vegferð þeir eru. Þar verði engin göt skilin eftir sem þurfi að koma mönnum á óvart síðar meir í framkvæmdinni.