Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:00:03 (6917)

2001-04-26 18:00:03# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa sem hæstv. samgrh. hefur fylgt úr hlaði er efnislega mjög líkt frv. sem flutt var á síðasta þingi og við í samgn. höfðum lagt töluverða vinnu í og var komið hér til 2. umr. í hinu háa Alþingi þegar það var stoppað og því var, ef svo má að orði komast, kippt til baka vegna m.a. ágreinings um ákveðin atriði sem þar voru lögð til og komu m.a. fram í tillögum hv. samgn.

E.t.v. var mesti ágreiningurinn um nokkur atriði eins og svokölluð minnstu réttindi skipstjórnarmanna eða pungapróf eins og það er oft kallað. Ætlun samgn. þá var að færa þetta upp í 75 brúttótonn. En nú er gerð tillaga um að þetta verði 50 brúttótonn sem ég hygg eftir á að sé miklu nær lagi og sé eðlilegt að láta koma hér fram.

En hér hefur hæstv. samgrh. jafnframt lesið upp bréf sem hann hyggst senda samgn. Ég missti því miður af upphafi þess þar sem ég var að hlaupa á milli húsa. En í Morgunblaðinu í dag kemur efnislega fram sennilega það sem í þessu bréfi er, þ.e. beiðni til samgn. um að þessi kafli um sjómenn á fiskiskipum verði ekki felldur brott heldur frestað, ef ég hef heyrt rétt. Það er gert til þess að liðka fyrir því að þetta mikla mál komist í gegnum þingið, vegna þess að ég hygg að, eins og á síðasta þingi, ágreiningur sé um þennan kafla frv., en enginn sjáanlegur ágreiningur um önnur atriði, þ.e. um flutningaskip og þau mál sem fjalla um að samþykkja þessar alþjóðasamþykktir um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna sem, eins og kom fram í máli hæstv. samgrh., eru til þess fallnar að taka út það mikla misræmi sem hefur gætt um menntunar- og þjálfunarkröfu sjómanna á farþegaskipum og flutningaskipum í einstökum aðildarríkjum IMO, eða Alþjóðasiglingamálastofnunar. Það er alveg hárrétt og mikilvægt að þetta sé gert. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál og sjálfsagt að það fari sem greiðasta leið hér í gegn eftir að búið er að fara í gegnum frv. í hv. samgn.

Hins vegar kemur mér á óvart að nú fyrst skuli mælt fyrir frv. hér á hinu háa Alþingi þó svo það hafi verið lagt fram um miðjan desember. Skýringin kann að vera þær miklu deilur sem hafa staðið um hluta þessa frv. eins og komið hefur fram hér, m.a. í óundirbúinni fsp. frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur til samgrh., um þann kafla sem veldur miklum deilum milli fagfélaga sjómanna, Vélstjórafélagsins og Skipstjóra- og stýrimannafélagsins og annarra, og þau orð sem komið hafa fram frá formanni Vélstjórafélagsins um að aldrei yrði skrifað undir kjarasamninga með þetta yfirvofandi eins og það liggur hér fyrir.

En það er sem sagt gott að það á að liðka fyrir þessu með bréfi, sem er dálítið sérstakt að skuli fylgja með þessu frv., frá hæstv. samgrh. til samgn. um að taka út eða fella brott fiskimannahlutann --- ég held að ekki sé nú ætlunin að fella brott eins og Morgunblaðið segir í dag --- fremur að fresta því að fjalla um þau atriði.

Herra forseti. Það þarf svo sem ekkert mikið að orðlengja um frv. sem hér er flutt eftir að það bréf sem hér hefur verið gert að umtalsefni var gert opinbert um það að fresta þeim þætti sem mestu deilurnar eru um.

Því ber að fagna að um mánaðamótin nóvember/desember á fundi sem haldinn var í Lundúnum hjá öryggisnefnd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, hafi verið fjallað um hvítlistann og því ber auðvitað að fagna að Ísland skuli nú prýða þennan hvítlista, sem er ákaflega mikilvægt til þess að uppfylla þau skilyrði sem þarna eru. Þetta er náttúrlega nauðsynlegt fyrir íslenska farmenn til þess að halda vinnu sinni eða fá vinnu á kaupskipum sem sigla undir erlendum fána og eru erlendis, í þeirri alþjóðavæðingu sem átt hefur sér stað, þar sem menn fara yfir öll landamæri í raun og veru, ef svo má að orði komast, og eru í vinnu út um allan heim. Það er ákaflega mikilvægt að þetta komi fram.

Það er sem sagt mikilvægt að við skulum vera komin á þennan hvítlista og er þá engin hætta á því að Íslendingar, eða íslenskir sjómenn, séu litnir hornauga hvað varðar störf þeirra annars staðar. Íslenskt menntakerfi er þannig stimplað fullnægjandi eins og það hefur náttúrlega alltaf verið og ekki er hægt að stöðva íslensk skip í erlendum höfnum vegna þessara mála, með öðrum orðum þarf ekki að skipa okkur á bekk með ýmsum vanþróuðum þjóðum sem eiga skip og annað sem hægt er að kyrrsetja í erlendum höfnum.

Herra forseti. Eins og ég sagði er svo sem ekki miklu við þetta að bæta eftir að aðaldeiluefnið er farið út. Ég sit í hv. samgn. eins og ég sagði áðan. Þar var mikið farið yfir þetta mál eins og það lá fyrir síðast og mikið um það rætt. Það var komið til 2. umr. þegar því var kippt út af borðinu og frestað. Hér er þetta sem sagt komið inn. Ýmsar lagfæringar og endurbætur hafa verið gerðar á þessu sem ekki er ástæða til þess að fara hér yfir. En mér sýnist að hér hafi verið unnið gott verk af hendi þeirrar nefndar sem fjallaði um þetta með því að setja þetta inn í einn lagabálk um áhafnir íslenskra skipa, þó svo ég hafi auðvitað fyrirvara um þau atriði sem snerta mönnun skipa og þó sérstaklega fækkun í áhöfnum eins og hér er boðað.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja á þessu stigi. Það er sannarlega þörf á að taka það sem ekki er ágreiningur um helst með hraðferð í gegnum þingið til þess að koma því til samþykktar.