Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:19:21 (6921)

2001-04-26 18:19:21# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hæstv. samgrh. hafi gefið þá yfirlýsingu sem hann gaf hér um að sá þáttur málsins sem mikill ágreiningur hefur verið um og sem snýr að fiskimönnum, stýrimönnum og vélstjórum á fiskiskipum verði tekinn út úr þessu frv. og að frv. þannig breytt fari þá sem allra fyrst í gegnum Alþingi. Ég vil líka vekja athygli á því að frv. var upprunalega samið þannig. Það var að mestu byggt á tillögu nefndar sem samgrh. skipaði og í framhaldi af frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta.

Frv. var þannig hugsað upprunalega og ég vil lýsa ánægju minni með að hæstv. samgrh. taki það sem snýr að fiskimönnunum út því að full nauðsyn er á því að afgreiða sem fyrst þann þáttinn sem snýr að farmönnum og hæstv. ráðherra kom hér inn á og ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Það er varðandi útgáfu skírteina sem staðfesta að við uppfyllum öll skilyrði STCW-samþykktarinnar frá 1978 og endurskoðunar hennar frá 1995, ásamt reglugerðum Evrópusambandsins nr. 94/58/EB og síðan var henni breytt og er tilskipun 98/35/EB.

Ég held því að málið sé nú komið í þann farveg að það eigi ekki að þurfa að vera ágreiningur um það og að mjög fljótlegt ætti vera að ná sátt um að málið fari í gegn í þeim búningi. Ég vil auðvitað treysta því að í framhaldi þess máls að svo verði gert sem ráðherra lýsti að hann mundi óska eftir við samgn. að þá sé sátt um þann þátt málsins sem snýr að farmönnum og farþegaskipum. Og jafnframt að menn séu nokkuð vissir um að reynt verði að ná sátt um mönnunarmál fiskiskipanna ef þau koma einhvern tímann síðar til umfjöllunar. Ég held að mikilvægt sé að menn geri þær breytingar sem þarf að gera í sátt.

Ég ítreka að ég fagna framkominni yfirlýsingu hæstv. samgrh. og treysti því að sá þáttur sem snýr að fiskimönnunum og hefur valdið erfiðleikum við lausn þeirrar kjaradeilu sem nú stendur yfir og hefur staðið lengi, verði til þess að það liðki þar fyrir málum og jafnframt að samtök vélstjóra og skipstjórnarmanna geti treyst því framvegis að ef til kemur að gera þurfi breytingar þá muni menn leysa það í samstarfi við hæstv. samgrh. og samgrn. Þá held ég að málum sé vel komið.