Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:00:11 (6931)

2001-04-26 19:00:11# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:00]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson misskilji málið verulega. Það er þannig í dag og hefur verið svo lengi, t.d. á togurum, að skipstjórinn stjórnar hraðanum á skipinu með einu handfangi. Hann er að hífa troll og hlera og stjórna skipinu á sama tíma. Þannig hefur það verið í mörg ár. Hefði hv. þm. verið á togurum, bara fyrir 20 árum, þá hefði hann séð þetta. Það hefur ekki þurft neinn vélstjóra til að standa við hliðina á skipstjóranum eða stýrimanninum til að ná inn trollinu og stjórna skipinu og vélinni á sama tíma. Það var reyndar þannig í gamla daga að menn þurftu að hafa vélsíma til að hringja niður í vél svo að hægt væri að breyta hraðanum á aðalvélinni en það er náttúrlega liðin tíð.

Einmitt af þessum ástæðum er löngu tímabært að endurskoða mönnunina. En vegna þessara laga og tregðu stéttarfélaganna til að gera breytingar --- þetta minnir dálítið á þrætuna í Bretlandi í prentiðnaðinum og víðar --- þá missum við þennan flota frá okkur, hugsanlega bara út af svona atriðum. Á því græðir enginn.

Ég vona að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, sem hefur heilmikið um þessi mál að segja, skoði þetta betur, a.m.k. hvað mönnunina varðar. Þær breytingar geta ekki gert neitt annað en að hjálpa sjómannastéttinni.