Umferðarlög

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:22:11 (6942)

2001-04-26 19:22:11# 126. lþ. 113.11 fundur 157. mál: #A umferðarlög# (reynsluskírteini) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:22]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987. Ég get haft framsöguræðu mína stutta.

Hér er um að ræða endurflutning á máli sem hefur einu sinni áður verið flutt, fyrir nokkrum árum á 116. löggjafarþingi. Þá varð málið ekki útrætt. Það var þá flutt í tengslum við ákveðnar umræður um breytingu á umferðarlögum sem varðar einmitt það atriði sem frv. snertir, þ.e. útgáfu ökuskírteina og ýmislegt í því sambandi. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman.

Frv. gengur út á að gera eina afar einfalda breytingu á einni grein umferðarlaganna, 51. gr., að í stað 1. og 2. mgr. komi þrjár nýjar málsgreinar, að hluta með nýju efnisinnihaldi. Málið gengur út á að við upphaf ökumannsferils, þegar menn hafa fengið ökuréttindi á bifreið eða bifhjól við 17 ára aldur, komi sérstakt reynslutímabil, sex mánaða tímabil, og það ökuskírteini sem gildi á því tímabili kallist reynsluskírteini. Þetta reynsluskírteini væri háð þeim takmörkunum að veita einungis réttindi til að stjórna bifreið í viðurvist reyndari ökumanns. Segja má að þetta sé dálítið skylt því æfingatímabili sem með breytingu á umferðarlögum 1992 var heimilað að taka inn. Það tekur til ársins áður en ökuskírteini er gefið út, þ.e. til tímabilsins á milli 16 og 17 ára aldurs vilji menn fá ökuréttindi strax og þeir hafa aldur til.

Ástæðan fyrir því að þetta er reifað hér og flutt í frumvarpsformi er ósköp einföld, herra forseti, og er því miður áfram til staðar óbreytt frá því að þetta frv. var fyrst flutt. Ástæðan er hin gríðarlega háa slysatíðni yngsta aldurshópsins sem fær þessi réttindi. Í greinargerð með frv. fylgja ákveðnar upplýsingar unnar upp úr gagnabanka Umferðarráðs sem sýna svo ekki verður um villst að slysatíðnin er langmest hjá yngstu ökumönnunum. Þar má nefna að á árabilinu 1995--1999 eru að meðaltali 154 17 ára ökumenn sem koma við sögu í slysum á hverju ári. Í 18 ára aldurshópnum er talan dottin niður í 103 og síðan er meðaltalið 78 úr árgangi á milli 19 og 24 ára aldurs og 25 að meðaltali úr árgangi þegar aldur ökumanna er komin upp í 25--60 ára.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að þarna eru hlutföllin gríðarlega ólík og slysatíðnin, eins og reyndar er vel þekkt, gífurlega há hjá yngsta hópnum. Þær miklu mannfórnir sem því fylgja er erfitt að sætta sig við. Þess vegna leggjum við flutningsmenn til að tilhögun af þessu tagi verði tekin upp til þess að þrepaskipta, ef svo má orða það, frekar en nú er þessum réttindum þannig að þau séu takmörkuð í fyrstu og menn venjist því smátt og smátt að hafa þau mikilvægu en um leið afdrifaríku réttindi, eins og það getur orðið, að mega stjórna ökutæki.