Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:32:09 (6948)

2001-04-27 10:32:09# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrir liggur prentuð dagskrá fyrir störf Alþingis í dag. Þar er gert ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla verði kl. 10.30, í byrjun þingfundar. Þeir sem grennsluðust fyrir um þetta hjá starfsmönnum þingsins í morgun, um hvort þetta mundi ekki standast, fengu þau svör að svo yrði.

Nú gerist það eina ferðina enn að þingmenn stjórnarandstöðunnar eru mættir til þings til að taka þátt í þingstörfum samkvæmt fyrir fram boðaðri dagskrá en heimtur stjórnarsinna eru afskaplega rýrar. Því hefur verið ákveðið, heyrum við frá hæstv. forseta þingsins, að atkvæðagreiðslu verði frestað vegna þess að stjórnarsinnar mæta ekki til þings. Jafnframt eru boðuð mjög umdeild þingmál og talað um að þau skuli ganga í gegnum þingið með afbrigðum.

Ég vil koma á framfæri mjög harðri gagnrýni við stjórn þingsins hvað þetta snertir. Mér finnst þetta ótæk vinnubrögð og ég geri kröfu um að á þessu verði breyting.