Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:36:54 (6951)

2001-04-27 10:36:54# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að þingmenn viti nokkurn veginn hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir sig. Það höfðu komið skilaboð um að hér yrði atkvæðagreiðsla. Ég veit ekki hvaðan þau eru ættuð. Ef þau eru ekki frá þeim sem stjórna þinginu ber að athuga það betur. Ég held að það sé gott að það sé föst venja í gangi varðandi þetta. Ég hef ekkert út á það að setja að atkvæðagreiðslur séu hafðar reglulega kl. 13.30 þegar fundir hefjast kl. 10.30 en það þarf þá að liggja skýrt og klárt fyrir.

Hins vegar urðu menn ekkert hissa á því þó að atkvæðagreiðslu væri frestað í morgun. Í gær var það svo að stjórnarliðið hafði ekki nema eins atkvæðis meiri hluta í salnum og mátti engu muna. Hefði einhver ranglað hér inn af þeim sem voru fjarverandi af stjórnarandstöðunni þá hefðu mál fallið. Stjórnarliðar hafa náttúrlega ekki viljað bjóða upp á að atkvæðagreiðslur færu öðruvísi en þeir ætla. Það er furðulegt að með slíkan meiri hluta sem stjórnarsinnar hafa í þinginu skuli þeir lenda í þessum vandræðum. Ég átta mig ekki á því, ef tæpar stæði, hvernig þeir gætu rekið þinghaldið frá sinni hendi.

Ég held að lausnin á þessu sé sú að menn komi sér saman um að halda fast í þá reglu að hafa atkvæðagreiðslur á þessum tíma dags, kl. 13.30, og frá því verði ekki hvikað svo að ekki sé verið að rugla menn í ríminu með það og menn geti tekið þann tíma frá til þess að vera hér við atkvæðagreiðslur.