Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:41:34 (6955)

2001-04-27 10:41:34# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það þarf ekki að bæta miklu við það sem hér hefur verið sagt. Allt er það satt og rétt. Ég vil hins vegar minna á að fyrstu árin mín á þingi var það viðtekið að atkvæðagreiðslur væru af og til í dagsins önn. Þingmenn voru mikið í húsinu, þeir fengu skilaboð með stuttum fyrirvara, voru á vinnustað sínum og mættu til atkvæðagreiðslu. Það hefur hins vegar þróast þannig að til hagræðingar hefur atkvæðagreiðslum verið safnað saman og ekki síst hefur það verið vegna skilnings á stöðu ráðherra. Sú röksemd hefur a.m.k. oft verið notuð að það sé auðveldara fyrir ráðherrana að atkvæðagreiðslur séu hafðar á ákveðnum tímum.

Ég tel að þau viðbrögð sem hv. þm. hafa sýnt þessa morgunstund eigi rætur í því hvernig mál hafa þróast, herra forseti. Það er fullkomlega óviðunandi að þegar umræður fara fram í þessum sal eru stjórnarliðar næstum aldrei viðstaddir. Ráðherrarnir koma hér þegar þeirra eigin mál eru til umræðu, skjótast hingað inn. Hins vegar þarf oft mikið fyrir því að hafa af hálfu þingmanna að fá þá til að vera viðstadda umræður um mál á þeirra málasviði.

Í gær gerðist það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, að verið var að setja hér mikilvæg lög frá Alþingi, samþykkt með 18 og 19 atkvæðum. Í ljósi þess hvernig talað hefur verið um meiri hluta, t.d. meiri hluta í Hæstarétti af hálfu þeirra sem hér ráða og stýra, er þetta fullkomlega óviðunandi og hvimleitt fyrir þá sem eru að störfum í þinginu, að stjórnarmeirihlutinn hegðar sér eins og hann eigi þingið og mætir bara þegar honum þóknast, þegar hann vantar stimplun Alþingis, eins og sumir segja, en ég vil helst ekki að nota það orð. Við verðum að breyta þessu. Við verðum að upphefja þingið og breyta um vinnubrögð. Þetta getur ekki gengið.