Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:45:49 (6957)

2001-04-27 10:45:49# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Mér þykir nokkuð merkilegt að menn skuli taka upp umræðu af þessu tagi núna, reyndar ekki í fyrsta skipti, því mjög mikið hefur verið kvartað yfir því að undanförnu af hálfu stjórnarandstöðunnar að stjórnarliðar mæti illa. Ég held hins vegar að ef það mál væri grannt skoðað mundi koma í ljós að það mætti bæta mætingu allra þingmanna á Alþingi. Mér finnst mjög einkennilegt að taka upp umræðuna með þessum hætti og ég held að það sé okkur ekki til sóma. Ég held að við eigum þá öll að sameinast um það ef okkur þykir mætingunni vera ábótavant að gera úrbætur og lagfæringar.

Það er þá kannski líka til marks um ákveðna málefnafátækt ef þetta á að vera aðalatriði í upphafi hvers þingfundar. Ef menn hafa ekkert annað til þess að ræða þykir mér það vera mjög merkilegt. En ég tek undir að það geti verið betri mæting. Mér finnst að við eigum að sameinast um að lagfæra þá hluti í stað þess að vera að karpa í upphafi hvers þingfundar út af slíkum málum. Þar að auki er alveg ljóst að það hefur oft verið iðkað að vera að telja upp nöfn þingmanna sem eru viðstaddir eða ekki viðstaddir. Menn geta auðvitað farið í það far en ég get ekki hugsað mér að taka þátt í slíkum vinnubrögðum.