Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:20:21 (6971)

2001-04-27 11:20:21# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:20]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil spyrja forseta vegna þessara orða hvort forseti líti ekki svo á að það sé ein af meginskyldum forseta og eitt af því sem forseti hljóti að hafa sérstaklega í huga í störfum sínum, að þingmenn fái að koma viðhorfum sínum á framfæri hér í umræðu. Liggur ekki þar með fyrir að ef forseta er kunnugt um að þingmenn ætli sér gagngert að taka þátt í umræðu um tiltekið mál, þá geri forseti það ógjarnan að haga fundarstjórninni þannig að þingmenn verði af rétti sínum til að taka þátt í umræðunum, vegna þess að þeir séu tilfallandi staddir utan þingsalarins? Lítur forseti ekki svo á að mikilvægt sé að öll sjónarmið fái að koma fram í umræðum um mál? Þegar fyrir liggur að um mál eru deildar meiningar og þingmenn ætla að nota rétt sinn til þess að ræða þau við 3. og síðustu umræðu, er þá ekki mikilvægt að forsetar reyni að haga fundarstjórninni þannig að sá réttur sem þingmenn hafa samkvæmt þingsköpunum, að tjá sig í tvígang í hverri umræðu um málið, verði ekki frá þeim tekinn?

Ég er undrandi á þessum orðum forseta. Við erum hér ekki að tala um eitthvert barnapíuhlutverk af hálfu forseta. Við ætlumst auðvitað til þess að forsetar reyni að standa þannig að fundarstjórn og skipulagningu þingstarfanna að réttur þingmanna fái að njóta sín.