Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:22:53 (6974)

2001-04-27 11:22:53# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að orðlengja þetta atriði málsins. En af því hæstv. forseti taldi sérstaka ástæðu til þess að gera það þá sé ég mig knúinn til þess.

Ég vakti máls á mikilvægi þess í morgun að þetta mál yrði tekið út af dagskrá. Þá var ekki hægt að verða við því. Ég spurði þá sérstaklega eftir því hvenær það kæmi á dagskrá þar sem ljóst er af vinnubrögðum hér að af ýmsum ástæðum er ekki farið niður dagskrána eins og venja er til heldur hoppað yfir í önnur mál neðar á dagskránni. Þess vegna spurði ég eftir því hvenær málið kæmi á dagskrá. Ég fékk það svar að það yrði sennilega fyrir hádegið. Ég lét þess getið að ég mundi taka þátt í þessari umræðu og væntanlega fleiri og hún yrði ítarleg. Ég þurfti að fara yfir Austurvöllinn að sækja gögn þegar hoppað var í þetta mál. Ég veit fyrir víst að hæstv. dómsmrh. var ekki kominn í hús þegar það var. Hún var ekki kominn í hús þegar málið var tekið á dagskrá. Það stefndi allt í að málið yrði afgreitt umræðulaust vegna þess að þingmönnum var ekki ljóst hvenær málið kæmi til umræðu, af því að það er ekki farið eftir dagskránni og erfitt að glöggva sig á því hvenær mál eru tekin fyrir. Þess vegna spurði ég eftir því.

Ég ætla svo sem ekki að gagnrýna einn eða neinn í þessu. Við skulum halda ró okkar og haga störfum okkar þannig að þeir sem vilja tala í málum geti það. Það liggur ekki alveg lífið á, sérstaklega ekki í því máli sem hér um ræðir. Ég hygg að við getum gefið okkur ráðrúm og tíma og það ætla ég að gera í ítarlegri ræðu hér á eftir. Hæstv. dómsmrh. gat ekki verið hér við 2. umr. máls, væntanlega af lögmætum ástæðum. Ég vænti þess að hún þurfi að leggja mikið til málanna og ræða þetta mál vandlega.

Undir þessum formerkjum hefði forseti getað áttað sig á því að það væri fyrir hrein og klár mistök ef málinu væri rennt í gegn umræðulaust, þ.e. í ljósi þeirrar atburðarásar sem ég hef rakið.