Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:25:22 (6976)

2001-04-27 11:25:22# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég veit ekki hvaða hundur er hlaupinn í hæstv. forseta. Forseta var það sjálfum ekki nægilega ljóst þegar ég spurði eftir því hvenær málið kæmi á dagskrá. Hann svaraði því fyrst til að það yrði klukkan hálfþrjú í dag en þurfti síðan að leiðrétta sig og sækja mig niður í anddyri til að segja mér að hann hefði farið rangt með. Við skulum bara fara varlega í svona yfirlýsingar, hæstv. forseti. Það er fullkomlega ástæðulaust að einhver leiðindi séu hér í forsetastóli. Við skulum reyna að hafa á þann hátt, sem hér hefur sem betur fer verið á þessum vetri, að reyna að vinna að því saman að gera hlutina eins vel og kostur er. Ég vænti þess að hér sé aðeins um mistök að ræða og forseti hafi farið vitlausu megin fram úr í morgun.

(Forseti (GuðjG): Það hafa þá fleiri farið vitlausu megin fram úr í morgun. Ég tel að það sé engin happa og glappa stjórn á þessum fundi. Það var tilkynnt nákvæmlega við upphaf fundar hvernig farið yrði í málin. Forseti leiðrétti sig eftir að hv. þm. hafði spurt hvenær þetta mál yrði á dagskrá og tilkynnti honum að það yrði fyrir hádegi. Og kl. 11 hlýtur nú að teljast fyrir hádegi.)