Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:33:11 (6980)

2001-04-27 11:33:11# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að aðstæður hafa að ýmsu leyti breyst hvað varðar fíkniefnaviðskiptin í Evrópu. Almennt er viðurkennt að helstu farvegir fyrir þau séu úr austan- og suðaustanverðri Evrópu inn á svæðið. Þetta hefðu menn kannski átt að hafa í huga svolítið þegar þeir voru að velta því fyrir sér hversu skynsamlegt væri að Ísland gerðist aðili að Schengen-svæðinu. Það er ágætt að hæstv. dómsmrh. er a.m.k. meðvituð um það að mjög greiðar leiðir eru taldar vera fyrir fíkniefni úr suðri, suðaustri og austri inn á Schengen-svæðið svonefnda sem við Íslendingar erum nú orðnir landamæralausir hlutar af.

Varðandi athugun á dómum eða refsingum sem dæmdar hafa verið í fíkniefnamálum og spurningu um tíðni endurbrota þá kann svo að vera að hún sé ekki sérlega há miðað við ýmis önnur tilvik. Á hitt verður þó að a.m.k. að líta að fælingaráhrif refsinganna virðast ekki mjög mikil ef marka má stóraukna tíðni alvarlegra brota á þessu sviði. Það er nú venjan, ef ég kann eitthvað fyrir mér í þessum efnum --- það eru nú engin ósköp að vísu. Ég algjör leikmaður í þessum efnum og ekki lærður í fræðunum --- þá hef ég þó skilið það svo að menn væru öðrum þræði að hugsa sér eða hafa í huga fælingaráhrif strangra refsinga þegar slíkir hlutir væru stilltir af. Og þó menn reyni ekki endurtekið brot eftir að hafa hlotið refsingu í mjög ríkum mæli í þessu tilviki þá er hitt alla vega ljóst miðað við þróunina að undanförnu að fælingaráhrif þyngri refsinga hafa ekki verið þarna mjög mikil.

Það er svo að sjálfsögðu alveg rétt að menn verða að reyna að halda hér aðgreindri í umræðunni annars vegar dómavenjunum og hins vegar refsirammanum. Það er ljóst að dómavenjan, t.d. varðandi kynferðisbrotin, er miklu meira gagnrýnd en sjálfur refsiramminn. Það er mér alveg ljóst. En þetta hlýtur auðvitað allt að þurfa að skoðast í einhverju samhengi, herra forseti.