Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:43:10 (6986)

2001-04-27 12:43:10# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:43]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða hv. þm. kemur mér svo sem ekkert á óvart þar sem henni svipar mjög til þeirrar ræðu sem hann flutti við 2. umr. málsins. En það kemur þó nokkuð á óvart hversu mikið kapp hv. þm. leggur á að halda langar ræður um þetta frv. Þess vegna vil ég spyrja hann: Er hæstv. þm. á móti efni þessa frv.? Svar óskast.

Búið er að lýsa því oftar en einu sinni að þetta mál er vel unnið og fékk fullkomlega eðlilega skoðun í hv. allshn. Hv. formaður hennar hefur lýst því að þar hafi verið komið með viðbótarupplýsingar milli 2. og 3. umr. um málið enda er það bæði sjálfsagt og eðlilegt að slíkar upplýsingar séu veittar.

En ég vil vekja athygli á því að það lagaákvæði sem við erum að tala um að breyta kom inn í hegningarlögin árið 1974. Halda menn, hv. þingmenn, að það hafi ekkert breyst í þessu umhverfi í fíkniefnamálunum á þessum tíma, frá 1974? Við erum núna að tala um að hækka refsirammann frá 10 árum upp í 12 ár.

Mér finnst líka rétt að undirstrika að enginn af umsagnaraðilum leggst gegn þessu frv. nema Lögmannafélagið eða laganefnd þess og þó ekki allir sem eiga þar sæti. Þeir stinga meira að segja upp á þeim möguleika að setja lágmarksrefsingu í staðinn inn í frv. Það er miklu meira inngrip inn í refsiréttinn og leiðir væntanlega til enn harðari refsinga.

Ég vil líka fá að minnast á það vegna þess að hér var talað um frétt Fréttablaðsins í morgun að sú umfjöllun var nokkuð sérstök, því miður. Það er mikil einföldun á efni skýrslunnar að fullyrða að hún mæli gegn þessu frv. og því hefur enginn skýrsluhöfunda haldið fram. Ég vil bara undirstrika það, hv. þm.