Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:48:04 (6988)

2001-04-27 12:48:04# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:48]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel gott að það hefur komið fram að hv. þm. hefur upplýst það hér með að hann er á móti efni þessa frv. (Gripið fram í.) Hann er þá á móti því að stækka refsirammann í fíkniefnamálum.

Ég vil benda hv. þm. á það, ef honum finnst vanta einhver rök í þessu máli, að lesa nú greinargerðina með frv. þar sem rakinn er allur dómapraxís sem snertir brot á umræddu ákvæði sem þetta frv. fjallar um allt frá 1982, þó að ákvæðið raunar komi inn 1974, þar sem kemur alveg klárlega fram að það er verið að þyngja refsingar við þessum brotum vegna þess að þessi afbrot eru orðin miklu alvarlegri og þau eru komin núna, a.m.k. í tveimur dómum, upp í níu ára fangelsi, sem er nánast hámark á núverandi refsiramma. Það verður að skapa svigrúm til þess að dómarar geti tekið á því ef upp koma enn þá alvarlegri mál.