Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:54:23 (6992)

2001-04-27 12:54:23# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:54]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vakti athygli á þessu einmitt vegna þess að mér finnst afstaða Samfylkingarinnar vera stílbrot frá því sem hún hefur hingað til barist fyrir. Hún hefur verið samstiga stjórnarliðum í því að berjast gegn þessu. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að hún vilji ekki vera með okkur í því að gefa þau skýru skilaboð til fíkniefnasala að framferði þeirra verði ekki liðið.

Og þegar verið er að tala um að þynging refsinga feli í sér harðari brot þá erum við að tala um mun þyngri refsingar. Þá hefur verið talað um allt upp í 20 ár. Í Noregi er það í kringum 20 ár. Þar getur það hugsanlega haft þau áhrif, og rannsóknir hafa staðfest það, sem hv. þm. nefndi. En við erum ekki að tala um 20 ár. Við erum að tala um skýr skilaboð, þ.e. að fara úr tíu árum í 12 ár þannig að það sé í samhengi við það sem hingað til hefur verið gert af hendi ríkisstjórnarinnar. Þannig horfir þetta við mér og ég er undrandi.