Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:55:34 (6993)

2001-04-27 12:55:34# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:55]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur ekki verið samstiga ríkisstjórninni í þessum málum. Hún hefur verið langt á undan henni. Hún hefur verið langt á undan henni í baráttunni gegn fíkniefnum. Ég rifjaði það upp örstutt áðan hvernig við þyrftum að taka harðan slag við hæstv. dómsmrh. (ÁMöl: Af hverju þetta stílbrot?) um margrætt yfirvinnubann. Af hverju þetta stílbrot!

Herra forseti. Er þetta þá stílbrot hjá dómstólaráði? Er þetta þá stílbrot hjá Lögmannafélaginu? Er þetta þá stílbrot hjá Erlendi Baldurssyni? (Gripið fram í.) Er það stílbrot hjá öllum þeim sérfræðingum sem að málinu koma að gjalda varhug við því að þetta hafi ... (Gripið fram í.) Herra forseti. Að þetta hafi í fyrsta lagi áhrif. Í öðru lagi vilja menn vita hvaða áhrif þetta hugsanlega hafi. Er það stílbrot að biðja um svör við því? Það er hins vegar algert stílbrot að vita ekki neitt um það. Og þannig er það því miður hjá hv. þm. Ástu Möller og stjórnarmeirihlutanum, að þetta mál hefur ekki verið hugsað til enda. Það er það eina sem við biðjum um.

Ef við fengjum hér fullgild rök fyrir því að þetta hefði áhrif, þetta virkaði, þá værum við örugglega fyrstir allra til þess að leggja þessu lið.