Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:56:52 (6994)

2001-04-27 12:56:52# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:56]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur einmitt verið hugsað til enda. Við skulum aðeins átta okkur á því um hvers konar brot við erum að ræða.

Allt samfélagið er sammála um að við ofbeldisbrotum eigi að beita hörðum refsingum. Hvað eru ofbeldisbrot? Ofbeldisbrot eru iðulega framin í brjálæði, eru skyndiviðbrögð. Það er ekki nein skipulögð starfsemi sem býr að baki ofbeldisbrota sem allir eru þó sammála um að svara eigi af mikilli hörku. Þannig brot eru oft framin í ölæði, undir áhrifum ávana- og fíkniefna o.s.frv.

En hvers konar brot erum við að tala um hér? Við erum ekki að tala um brot sem eru framin bara sisona af einhverju vanhugsuðu ráði. Við erum að tala um brot þar sem er einbeittur brotavilji, þ.e. skipulögð starfsemi á sér stað. Til eru menn sem gera það að atvinnu sinni að nýta sér veikleika þeirra sem minni máttar eru í þjóðfélaginu og nýta sér veikleika þeirra gagnvart fíkniefnum. Það er verið að fara inn í skólana.

Er að ástæðulausu verið að leggja fram frv. um breytingu á lögum frá árinu 1974? Heldur hv. þm. að Íslandi hafi ekki eitthvað breyst frá árinu 1974?

Hv. þm. var tíðrætt um orð Erlendar Baldurssonar hins ágæta starfsmanns Fangelsismálastofnunar. Ég vil því spyrja hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson hvort hann sé sammála því að við megum ekki breyta refsilöggjöfinni vegna þess að hugsanlegt er að hún kalli þá á meiri kostnað og fleiri fanga inn í fangelsin? Að mínu mati er það hluti af okkar refsivörslukerfi að sjá til þess að nægilegt fjárframlag sé fyrir einmitt þessa þætti í refsivörslunni.