Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:59:10 (6995)

2001-04-27 12:59:10# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ástæðulaust að fara með stafrófið fyrir mig um alvarleika þeirra glæpa sem hér um ræðir því ég er alveg jafnmeðvitaður um þá og hv. þm. og aðrir stjórnarliðar og vil taka þá mjög föstum tökum og sýna litla miskunn.

Það sem ég hef verið að reyna að leggja hér höfuðáherslu á er hvort tilgangurinn helgi meðalið og þessi aðgerð ein og sér hafi í raun þau áhrif sem til er ætlast, hafi fælingaráhrif og dragi úr þeirri tegund alvarlegra glæpa sem við erum að tala um. En þar vantar svörin. Mun þetta hafa þau áhrif sem ég tel að hæstv. dómsmrh. og stjórnarmeirihlutinn vonist til? Um það hef ég ekki verið fullkomlega sannfærður og hef vísað til sérfræðinga í því sambandi.

Herra forseti. Hvað Erlend Baldursson varðar þá hef ég aldrei sagt eitt aukatekið orð um að ég hafi einhverjar áhyggjur af því að fangelsin fyllist. Það er nú eitt verkefnið sem hæstv. dómsmrh. og raunar forveri hennar öllu heldur hefur verið að veltast með í ein tíu eða 15 ár, þ.e. að byggja nútímalegt fangelsi. Það gengur hægt. Aðallega var það forvera hennar sem miðaði hægt. En nóg um það. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að þessi reynslumikli maður lýsti bara sínum efasemdum um að þetta virkaði. Og það er einfaldlega það sem ég er að kasta hér upp. Mér duga ekkert þau svör að segja bara hér: ,,Víst.`` Ég tek mark á því fólki sem ég starfa með, hv. þingmönnum. En ég tek líka mið af þeim sérfræðingum sem vinna úti á akrinum og þekkja þetta þeim megin frá og hef þess vegna verið að rekja umsagnir þeirra hvers af öðrum, þar sem þeir gjalda varhug við þessu og vekja upp áleitnar spurningar. Um það snýst þetta mál fyrst og síðast, ekki um það hver er harður og hver er mjúkur.