Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 13:02:12 (6997)

2001-04-27 13:02:12# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[13:02]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Já, þetta er vissulega hluti af heildarpakkanum og álitamál sem ég ætla ekkert að víkjast undan að skoða. En ég verð að hafa fullvissu fyrir því að breytingin virki.

En, herra forseti. Halda hv. þm. að það virki þannig að ef þingið vill fá röksemdir fyrir ágæti þess að fara þessa leið sé það merki út í samfélagið að hér séu menn deigir í baráttunni? Það er fremur þannig, herra forseti, að fólk velti því fyrir sér þegar lofað er milljörðum á milljarða ofan en lítið sést í þá sem fólk segir: Eru pólitíkusarnir bara að blaðra sig frá málinu? Eru þeir bara að sýnast? Meina þeir ekki neitt? Fólk spyr þegar fíkniefnalögreglan segir: Við getum ekki unnið vinnu okkar. Þá segir fólk: Eru pólitíkusarnir ekkert að meina í málinu?

Þess vegna vara ég við hinum ódýru merkjagjöfum út í samfélagið á borð við þá sem hér er þegar annað fylgir ekki með. Það vantar heilmikið upp á að stjórnarmeirihlutinn standi sig í stykkinu í þessum efnum. Það vantar peninga. Nýleg dæmi í þá veruna styrkja það og styðja.

Þetta eitt og sér mun ekki bjarga Róm frá að brenna.