Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:32:24 (7008)

2001-04-27 14:32:24# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur talað lengi og oft í þessu máli. En þegar umræðan er farin að snúast um að ætla hæstv. dómsmrh. það að hún sé að reisa sér minnismerki með því máli sem hér er lagt fram þá er það alveg með ólíkindum. Þegar menn eru tala um að þessi tvö ár séu slík viðbót að það jaðri við siðleysi, hvað eiga þeir þá við? Hvað er fangelsisárið langt? Er það 12 mánuðir? Ekki nema í einstaka tilfelli. Ef fangar haga sér vel þá losna þeir fyrr út. Er það ekki hluti af málinu? Hér er sagt að það sé bara nær undantekningarlaust að þeir sem fara í fangelsi komi þaðan út aftur verri en þegar þeir fóru inn. Hvaða fullyrðingar eru þetta? Hvað hefur hv. þm. fyrir sér í því? Liggja fyrir ábyggilegar og óyggjandi upplýsingar um það? Hafa engir fangar komið út úr fangelsi betri menn, m.a. vegna þess að fangelsisárið er sjaldnast 12 mánuðir? Það ræðst m.a. af hegðun þeirra.

Ég verð að segja að þegar menn eru farnir að ætla að dómsmrh. eða aðrir sem nálægt þessu máli koma séu að reisa sér minnisvarða þá eru þeir komnir á hálan ís.