Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:39:35 (7012)

2001-04-27 14:39:35# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Margar ræður hafa verið haldnar í tilefni af því frv. sem hér er til 3. umr. um breytingu á hegningarlögum varðandi fíkniefnabrot. Í sjálfu sér er ágætt að hv. þm. hafi áhuga á þeim málaflokki. Við erum auðvitað öll að reyna að vinna gegn þessum vágesti í okkar þjóðfélagi. Þess vegna skil ég ekki hvað býr að baki hjá hv. þm. Samfylkingarinnar sem kappkosta að tefja þetta mál.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði áðan að frv. væri vanbúið. Það hefur margoft verið sagt í umræðu um málið. Þessu vísa ég alfarið á bug. Frv. fylgir mjög skýr greinargerð. Í fylgiskjali er rakin öll dómaframkvæmd frá upphafi sem snertir þetta sérstaka ákvæði hegningarlaganna. Þetta ákvæði hegningarlaganna var sett inn í lögin 1974. Það blasir auðvitað við hvers konar breytingar hafa orðið í þessu umhverfi þennan langa tíma. Bara núna síðustu ár hefur þróunin verið mjög til hins verra eins og menn hafa séð mörg dæmi um.

Það er ljóst og kemur skýrt fram í greinargerðinni að refsingar hafa verið að þyngjast. Það er ekki að ófyrirsynju heldur er um að ræða miklu alvarlegri mál sem nú koma fyrir dómstóla. Því miður má búast við því að þau verði enn þá alvarlegri og þess vegna þurfa dómarar að vera í stakk búnir til að taka á þeim.

Það er líka tekið fram í greinargerð með frv. að það felst ekki í þessu frv., ef það verður að lögum, einhver sjálfkrafa refsiþynging. Það er auðvitað alltaf mat dómara hvernig þeir dæma í þessum málum og hvernig þeir nýta rammann.

Í dag eru í íslenskri löggjöf tvö ákvæði sem leggja viðurlög við meðferð og vörslu fíkniefna. Annars vegar er almennt ákvæði í lögum um ávana- og fíkniefni en hins vegar ákvæði í almennum hegningarlögum sem aðeins nær til hinna alvarlegri brota gegn fíkniefnalöggjöfinni. Fyrra ákvæðið segir til um sex ára hámarksrefsingu og því stendur ekki til að breyta en seinna ákvæðið segir til um fangelsisvist allt að 10 árum fyrir alvarlegustu brotin. Við erum einmitt að ræða um það hér.

Hugmyndin er auðvitað sú að víkka refsirammann þannig að svigrúm dómara aukist í þessum málum. Það gerir þeim kleift að leggja þyngri refsingar við alvarlegustu brotunum, t.d. þegar um er að ræða stórfelldan innflutning á hættulegum efnum eins og e-pillunni. Hins vegar þarf breytingin alls ekki að hafa í för með sér að allar refsingar í þessum málaflokki þyngist, enda stendur ekki til að breyta hinu almenna refsiákvæði í lögum um ávana- og fíkniefni. Þetta hefur margoft komið fram í umræðunni, hæstv. forseti.

Eins og ég sagði áðan ber að líta til þess að dómar hafa þyngst jafnt og þétt í fíkniefnamálum á síðustu árum og áratugum, enda hafa æ stærri mál verið upplýst og afar hættuleg efni hafa komið til skjalanna. Raunar er svo komið að dómar hafa komist í efstu mörk þess sem lög heimila, þ.e. allt að 10 ára fangelsi eins og sést á þeirri dómaframkvæmd sem rakin er í fylgiskjali með frv. Þessi dómaframkvæmd kallar að mínu mati á meira svigrúm fyrir dómstóla til þess að gera þeim kleift að láta hæfilega refsingu fylgja hverju broti og halda innbyrðis samræmi milli dóma í þessum málaflokki. Við verðum auðvitað að hafa það í huga í þessari umræðu að endanlegt mat á sök og refsingu í réttarkerfi okkar liggur hjá dómsvaldinu.

[14:45]

Það hefur verið mjög athyglisvert að kynnast því í sérstökum hópi sem stafar á vegum Evrópuráðsins, svokölluðum Pompidou-hópi sem ég beitti mér fyrir á síðasta ári að Ísland gerðist aðili að, að sjá hvaða reynslu aðrar þjóðir hafa af fíkniefnamálum. Víða er reynslan mjög slæm og ég tel að af því eigum við að læra. Það jaðrar við að sumar þjóðir séu að gefast upp við að berjast gegn þessum vanda.

En það hefur verið samræmd stefna í þessum málaflokki á Norðurlöndum. Mig langar til þess að rifja aðeins upp þær áherslur. Á Norðurlöndum er megináherslan á að setja hömlur og að koma í veg fyrir framboð fíkniefna. Jafnframt er heilbrigðiskerfið ábyrgt gagnvart fíklunum. Þar er áhersla á að fíkniefni eru refsiverð. Þungar refsingar eru í fíkniefnamálum. Óhefðbundnar aðferðir lögreglu eins og svokallaðar ,,under cover``-aðferðir eru notaðar. Áhersla er lögð á alþjóðlega lögreglusamvinnu og tollgæslu. Við að minnka framboð efna er lögð áhersla á að hafa áhrif á viðhorf almennings til fíkniefna. Þetta er styrkt með því að hafa efnin ólögleg eða a.m.k. ekki þjóðfélagslega viðurkennd.

Þetta frv. sem við erum að tala um hér er auðvitað hluti af þessum heildarpakka. Það er brýn nauðsyn að við pössum upp á um leið alls konar aðra þætti eins og forvarnir og meðferðarúrræði og hugum sérstaklega að ungum afbrotamönnum í þessu sambandi. Ég hef lýst því yfir að ég stefni að því að reyna að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Þó að það sé fyrst og fremst hugsað fyrir gæsluvarðhaldsfanga þá sé ég fyrir mér að þar væri hægt að hafa móttöku og greiningu fyrir fanga og leggja meiri áherslu á að hjálpa þeim sem eiga við vandamál að stríða og hjálpa þeim þannig til að vera betri menn þegar þeir koma aftur út í samfélagið. Dómsmrn. er líka með sérstakan samning við Barnaverndarstofu sem tekur unga afbrotamenn til sín í sérstaka meðferð. Það er því verið að vinna að mjög mörgu í þessum málum. Ég hef líka lagt áherslu á að bæta skilorðseftirlit hjá Fangelsismálastofnun til þess að fylgjast betur með ungu fólki sem lendir í sakamálum.

En ég er sammála því sem sumir hv. þm. hafa rætt hér, að nauðsynlegt er að stunda rannsóknir í sakamálum og refsirétti almennt. Það er nauðsynlegt að hafa slík gögn undir höndum eins og tölfræðilegar upplýsingar þegar refsistefna er mótuð. En það er líka alveg jafnljóst að hegningarlögin eru mjög stór lagabálkur. Fjallað er um margar tegundir afbrota eðli málsins samkvæmt og ekki er hægt að fara út í heildarendurskoðun á þessum lagabálki á skömmum tíma. Það tekur langan tíma og í raun má segja að hegningarlögin séu stöðugt í endurskoðun. Sérstök refsiréttarnefnd sem starfar í dómsmrn. fylgist með þróun á þessu sviði. Við erum í mjög nánu samstarfi við hin Norðurlöndin og erum með sambærilega löggjöf og þau. Við erum því alltaf í stakk búin til þess að breyta þegar þarf.

Við höfum verið að gera ýmsar breytingar á hegningarlögunum, á ýmsum ákvæðum. Ég get nefnt nýlegt ákvæði sem virðist hafa reynst vel, þ.e. hið svokallaða nálgunarbann sem kom inn í lög í fyrra og er þegar farið að reyna á. Ég tel að það sé mjög þarft. Ég vil líka rifja upp að þegar ég var formaður allshn. var kaflinn um kynferðisbrotin endurskoðaður, árið 1992. Ég velti því nú fyrir mér hvar við stæðum í dag ef við hefðum ekki gert þær breytingar á þeim tíma. Árið 1998 voru gerðar breytingar t.d. á fyrningarfresti í kynferðisbrotum gagnvart börnum eins og nú er búið að vera að ræða um í fjölmiðlum þar sem miðað er við 14 ára aldur og fyrningarfresturinn lengdur í 15 ár.

Það er því alveg ljóst að löggjafarvaldið þarf að geta gripið inn í og gert breytingar í takt við þróun sem verður í þjóðfélaginu og þar sem verið er að kalla eftir breytingum. Ég tel að ekki sé eftir neinu að bíða í þessu máli hér. Við erum með ítarlegar upplýsingar. Við erum með dómaframkvæmd. Hér hefur verið minnst á sérstaka nefnd sem hefur verið að vinna samkvæmt þáltill. þar sem Sigurður Tómas Magnússon er formaður. Það er fimm manna nefnd sem starfar nú ötullega að því máli en það tekur allnokkurn tíma að vinna upp þessi gögn. Verkefnið er rannsókn á þróun á dómum vegna nokkurra tegunda alvarlegra afbrota. Þar er verið að vinna úttekt á þróun afbrota á síðari hluta aldarinnar með tilliti til fjölda mála, alvarleika brota, þyngdar viðurlaga og rökstuðnings í dómaforsendum.

En það er sambærilega úttekt að finna á fíkniefnabrotunum í greinargerðinni með frv. eins og ég sagði áðan. Þess vegna mælir ekkert í sjálfu sér með því að beðið verði eftir þessari skýrslu fram á haust. Nægar upplýsingar liggja fyrir.

Þar að auki er rétt að hafa í huga að víðar er safnað upplýsingum á þessu sviði. Ríkislögreglustjóri tekur saman ítarlegar upplýsingar um afbrot, þar með talin fíkniefnabrot, fer yfir fjölda brota, gerir grein fyrir magni efna sem gerð eru upptæk. Gerðar eru reglulegar markaðskannanir um verð og gæði efna í umferð. Fangelsismálastofnun heldur utan um tölfræði varðandi þau mál sem varða Fangelsismálastofnun og dómsmrn. hefur tekið saman dómaframkvæmd frá 1974 þegar umrætt ákvæði tók gildi.

Þá hefur líka verið minnst á almenn varnaðaráhrif refsinga. Það er rétt sem fram hefur komið hjá þingmönnum Samfylkingarinnar að margt bendir til þess að þyngri refsingar skili ekki alltaf tilætluðum árangri. Ég hygg að enginn mótmæli því. En þá verður að hafa í huga að afbrot og afbrotamenn eru afar ólíkir að gerð. Ég bendi t.d. á muninn á síbrotamanni sem stundar innbrot til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu sína og svo hins vegar eiturlyfjasala sem skipuleggur sölu og innflutning á efninu. Í síðara tilvikinu er um að ræða þrautskipulagða afbrotastarfsemi þar sem afbrotamaður hlýtur beint eða óbeint að taka mið af mögulegum refsingum vegna athafna sinna.

Ég vil líka ítreka það að ég hef vitnað hér til nýlegrar skýrslu til íslenskra stjórnvalda um rannsókn á ítrekunartíðni afbrota þar sem fram kemur margt athyglisvert. Niðurstöður í skýrslunni sýna góðan árangur af stefnu íslenskra stjórnvalda. Við beitum almennt séð tiltölulega vægum viðurlögum en þó er ítrekunartíðni ekki meiri en meðal annarra landa. Sérstaklega var fjallað um samfélagsþjónustu sem úrræði í þessari skýrslu og kom það mjög vel út.

En við þurfum líka að undirstrika að áhrifin eru mismunandi eftir brotaflokkum. Þannig virðast þyngri refsingar hafa meiri áhrif á tíðni ítrekunar í fíkniefnabrotum en t.d. almennum auðgunarbrotum. Rannsóknin sýnir okkur því hvar þyngri refsingar gætu átt við og í hvaða málum þær væru síður líklegar að skila árangri.

Þessu til staðfestingar kemur fram í rannsókninni að ítrekunartíðni hjá þeim sem dæmdir eru til fangelsisrefsingar fyrir fíkniefnabrot er ekki há samanborið við þá sem dæmdir eru til fangelsisrefsingar fyrir annars konar brot. Þegar ítrekunartíðni meðal þeirra sem fá skilorðsbundinn dóm er hins vegar skoðuð snýst dæmið við því að þá er ítrekunartíðnin tiltölulega há hjá þeim sem hlutu dóm fyrir fíkniefnabrot. Fangelsisrefsing virðist því hafa meiri áhrif á þá sem fremja fíkniefnabrot en aðra. Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður sem koma fram í þessari skýrslu.

Einnig hefur verið rætt nokkuð um reynslulausn fanga. Varðandi reynslulausn skal tekið fram að refsiföngum vegna alvarlegra fíkniefnamála gefst almennt ekki kostur á reynslulausn fyrr en eftir afplánun á tveimur þriðja hluta refsingar og er reynslulausn því sett í hóp með hinum alvarlegustu brotum svo sem manndrápi og líkamsárásum.

Reglur um reynslulausn og hegðun fanga o.s.frv. hér á landi eru í samræmi við evrópskar fangelsisreglur og þær er auðvitað nauðsynlegt að hafa. Reglur um svokallaða fyrirmyndarganga og misrúmar reglur fyrir fanga til þess að hafa samband við umheiminn eru mikilvæg tæki til þess að halda uppi aga í fangelsum. Þetta er gulrót fyrir þá fanga sem sýna góða hegðun og samstarfsvilja við fangelsisyfirvöld. Ef menn bregðast traustinu missa þeir auðvitað fríðindin og annað hefur í raun ekki gerst í þessu máli. Það skiptir miklu máli að menn fái tækifæri til að sýna góða hegðun í fangelsi og að þeir fái umbun fyrir það. Það er mjög mikilvægt.

Þá hefur verið nefnt hér sérstaklega að það sé spurning um meira fjármagn í þennan málaflokk. Vissulega er það svo að þessi málaflokkur kallar á mikið fjármagn. En stjórnvöld hafa einmitt verið að bregðast við þessu ákalli og fíkniefnalöggæslan hefur verið að eflast mjög mikið. Ég held að það fari ekki fram hjá mönnum sem fylgjast með fréttum að lögreglan hefur staðið sig mjög vel í þessum málum. Framlög til fíkniefnalöggæslu hafa aukist verulega á undanförnum árum og mikill liðsauki bæst við fíkniefnalögregluna.

Nú nýlega á þessu ári voru ráðnir fimm lögreglumenn til fíkniefnalögreglunnar hjá lögreglunni í Reykjavík og einn í Hafnarfirði, en á fjárlögum síðasta árs voru fjárveitingar til fíkniefnalöggæslu hækkaðar um 50 millj. kr., þar af runnu 20 milljónir til lögreglustjórans í Reykjavík til ráðningar fimm lögreglumanna, sérstaklega til að sinna fíkniefnalöggæslu, einkum götueftirliti og forvarnastarfi. Þá runnu 12 milljónir til ráðningar sérstakra fíkniefnalögreglumanna í Kópavogi, á Selfossi og í Keflavík auk þess sem 12 milljónir voru veittar til tækjakaupa og fjölgunar fíkniefnahunda. Á þessu ári eru fjárveitingar aftur hækkaðar um 50 milljónir eins og hv. þingmenn þekkja.

Það er því alveg ljóst að stjórnvöld hafa staðið sig mjög vel í þessum málum og þá er ótalið það fjármagn sem hefur verið lagt til að koma upp fleiri heimilum, auka meðferðarúrræði og margt annað sem til þarf. Og það er alveg ljóst að þörfin er fyrir hendi.

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að fara nokkuð yfir þetta mál út af þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og ýmsum fullyrðingum sem fram hafa komið í þessari umræðu. Ég ítreka að ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða. Við erum að tala um unga fólkið okkar. Við erum að tala um menn sem stunda skipulega glæpastarfsemi með ásetning í huga og við þurfum að geta tekið á þeim málum. Við þurfum að gæta að samræmi í dómaframkvæmd. Við erum nú þegar nánast komin upp í hámarkið á refsirammanum sem er tíu ár. Þess vegna tel ég ekki bara eðlilegt og réttmætt heldur brýna nauðsyn á því að hækka þennan ramma upp í 12 ár. Ég vona svo sannarlega að við sjáum framgang þessa frv. mjög fljótlega á hinu háa Alþingi.