Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:59:02 (7013)

2001-04-27 14:59:02# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu sem hefur nú ekki verið mjög löng. Hún hefur þó leitt í ljós að allt þingið er sammála um það markmið sem að er stefnt, þ.e. að reyna að stemma stigu við fíkniefnaglæpum. Hins vegar hefur komið líka í ljós í umræðunni að stór hluti þingmanna hefur miklar efasemdir um þá leið sem hæstv. dómsmrh. ætlar að fara í þessu skyni.

Það er líka verðugt umhugsunarefni þegar hér á hinu háa Alþingi koma fram hugmyndir eins og þær sem hér eru, þar sem allar helstu vísindarannsóknir benda til að þessi leið skili engum árangri, enda hefur verið fróðlegt að hlýða á hæstv. dómsmrh. við lok ræðu hennar þar sem hún hefur verið á einhvers konar flótta frá eigin máli. Ekki er langt síðan að hæstv. ráðherra sagði á hinu háa Alþingi að nauðsyn væri á að þyngja refsingar úr tíu árum í 12 til að koma í veg fyrir að hingað kæmi heróin. Ég er ekki viss um að það skipti sköpum í þessari umræðu. En núna í lokaræðu sinni segir hæstv. dómsmrh. að þessi breyting þurfi ekki að verka til þess að þyngja refsingar. Það er því alveg deginum ljósara að umræðan hefur þó fært hæstv. dómsmrh. heim sanninn um að hún er líklega ekki á réttri leið. Það verður að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er ánægjulegt til þess að vita að umræðan skuli þó a.m.k. draga menn af rangri braut.