Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:02:08 (7015)

2001-04-27 15:02:08# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er gott að ráða í þetta andsvar. Hins vegar er rétt að upplýsa að sá er hér stendur og held ég allir þingmenn eru nokkuð vel upplýstir um að dómendur dæma í málum en ekki hæstv. dómsmrh.

Ég dró það fram í andsvari mínu að hæstv. ráðherra sagði fyrir nokkrum dögum að engan tíma mætti missa, að alls ekki mætti fresta þessu máli sökum þess að hingað gætu komið til landsins stórar sendingar af fíkniefnum og í því samhengi var heróín nefnt sérstaklega. Því velti ég því upp af hverju hæstv. dómsmrh. telur að þessi tiltekna breyting muni hafa svona stórkostleg áhrif ef hún muni ekki hafa nein áhrif að því er varðar þyngingu refsinga. Ég verð að játa það, virðulegi forseti, að ég hef bara verið að reyna að draga þetta saman og átta mig á því á hvaða vegferð hæstv. dómsmrh. er. En við ýmsu er að búast úr þessari átt. Einn hv. þm. Sjálfstfl. nefndi áðan að kannski til viðbótar væri rétt að taka upp hýðingar. Ég ítreka þá afstöðu mína, virðulegi forseti, að ég er þeim algerlega andvígur.