Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:06:39 (7018)

2001-04-27 15:06:39# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get glatt hv. þm. með því að ég hef ekki áhyggjur af þeim umsögnum sem fram hafa komið um þetta frv. vegna þess að allar nema ein lögðust ekki gegn frv. Það gerði aðeins Lögmannafélags Íslands, þ.e. laganefnd eða nokkrir aðilar sem sitja í laganefnd. Þeir voru ekki einu sinni allir sammála og þeir bentu á þann möguleika að ef þingið vildi fara út í það að þyngja refsingar í fíkniefnamálum þá ætti jafnvel frekar að setja lágmarksrefsingu í lögin. Það, hv. þm., er miklu meira inngrip í refsiréttinn en það að stækka rammann vegna þess að það setur dómurum ákveðnar skorður.

Aðeins á tveimur stöðum í hegningarlögum er gert ráð fyrir slíkum undantekningum eða fráviki frá meginreglunni, þ.e. lágmarksrefsingu, og það er í nauðgunarmálum, eitt ár, og í manndrápsmálum, fimm ár. Það er því undantekning frá meginreglunni. Þetta frv. er hluti af þeim pakka sem við höfum verið að ræða í lengri tíma á hinu háa Alþingi, þ.e. hvað við getum gert til þess að berjast betur gegn þessum vágesti, fíkniefnunum, og þetta frv. er mikilvægur þáttur í þeirri baráttu.