Málefni aldraðra

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:28:45 (7025)

2001-04-27 15:28:45# 126. lþ. 114.18 fundur 695. mál: #A málefni aldraðra# (vistunarmat) frv., Frsm. ÁMöl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Frsm. heilbr.- og trn. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Hv. heilbr.- og trn. flytur málið og er ég framsögumaður í fjarveru formanns heilbr.- og trn., hv. þm. Jónínu Bjartmarz.

1. gr. frv. hljóðar svo:

,,1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:

Sveitarstjórnir í heilsugæsluumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, skipa fimm fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra að loknum sveitarstjórnarkosningum. Héraðslæknir tilnefnir lækni, með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilislækninga, og hjúkrunarfræðing, með þekkingu á öldrunarþjónustu. Sveitarstjórnir skipa án tilnefningar tvo fulltrúa sem hafa þekkingu á félagslegri þjónustu við aldraða. Skal annar þeirra vera félagsráðgjafi eða hafa hliðstæða menntun. Samtök eldri borgara á svæðinu tilnefna einn fulltrúa úr sínum röðum og sinnir hann öðrum verkefnum þjónustuhóps aldraðra en þeim sem kveðið er á um í 4. tölul. 8. gr.``

2. gr. hljóðar svo:

,,Á eftir orðunum ,,þjónustuhóps aldraðra`` í 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: sbr. þó 7. og 8. gr.``

3. gr. hljóðar svo:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Í greinargerð með frv. kemur fram að samkvæmt 4. tölul. 8. gr. laga um málefni aldraðra hefur þjónustuhópur aldraðra m.a. það hlutverk að meta vistunarþörf aldraðra. Sveitarstjórnir skipa þjónustuhópa aldraðra á hverjum stað. Samtök eldri borgara á hverju svæði tilnefna einn fulltrúa í hópinn og tekur hann fullan þátt í verkefnum starfshópsins eins og þau eru skilgreind í 8. gr. laganna.

Því má bæta við að þessi breyting var gerð á lögunum á 125. löggjafarþingi þegar lög um málefni aldraðra voru til endurskoðunar og samþykkt á því þingi.

Þátttaka fulltrúa eldri borgara í vistunarmatinu hefur sætt nokkurri gagnrýni og hafa allmörg sveitarfélög gert athugasemd við þetta fyrirkomulag. Hefur sú gagnrýni einkum byggst á þeirri forsendu að vistunarmatið eigi eingöngu að byggjast á vinnu fólks með fagþekkingu á sviði heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu.

Við mat á vistunarþörf er stuðst við viðkvæmar persónuupplýsingar um félagslegar og heilsufarslegar aðstæður einstaklinga. Benda má á að skv. 15. gr. laga um réttindi sjúklinga skulu einungis þeir starfsmenn sem nauðsynlega þurfa hafa aðgang að sjúkraskrám. Sömu sjónarmið eiga við þegar vistunarmat er framkvæmt. Vistunarmat felur í sér faglega greiningu á þörfum viðkomandi einstaklings og verður aðkoma fulltrúa aldraðra að þeirri vinnu vart talin nauðsynleg.

Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að vistunarmatið verði eingöngu í höndum fagfólks. Samtök aldraðra eiga eftir sem áður fulltrúa í þjónustuhópi aldraðra á hverjum stað en hann mun ekki taka þátt í að meta vistunarþörf aldraðra skv. 4. tölul. 8. gr. laganna.

Við mótun þeirra tillagna sem hér eru lagðar fram var haft samráð við fulltrúa Landssambands eldri borgara og kom fram af þeirra hálfu að þeir styddu þessar breytingu.

Til að tryggja faglega hæfni þjónustuhópsins enn frekar er lagt til að annar þeirra tveggja fulltrúa sem sveitarstjórn skipar án tilnefningar verði félagsráðgjafi eða hafi hliðstæða menntun.

Þess má geta að í Reykjavík er vistunarmatið ekki í höndum þjónustuhóps aldraðra heldur sinnir sérstakur matshópur þessu hlutverki, samanber reglugerð um vistunarmat. Matshópurinn er eingöngu skipaður fagfólki og er í reglugerð sérstaklega kveðið á um menntun þeirra sem sinna matinu. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að minni kröfur séu gerðar til þeirra sem sinna vistunarmati í öðrum sveitarfélögum.

Þar sem þetta frv. er flutt af heilbr.- og trn., geri ég ekki ráð fyrir að það fari til nefndar.