Búfjárhald og forðagæsla o.fl.

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:57:02 (7028)

2001-04-27 15:57:02# 126. lþ. 114.19 fundur 298. mál: #A búfjárhald og forðagæsla o.fl.# (varsla stórgripa) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektirnar og stuðninginn. Ég vil aðeins útskýra hvernig ég sé framtíðina fyrir mér í þessum efnum sem svar við athugasemdum hv. þm. Ég sé hana í grófum dráttum þannig að í fyrsta lagi væri almenna reglan í landinu vörsluskylda á stórgripum. Í öðru lagi væru vegir girtir af beggja vegna út frá öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins og þjóðvegur 1, í aðalatriðum hringvegurinn og helstu leiðir út frá honum til Vestfjarða, norðausturleiðin og aðrar slíkar girtar af þannig að þar væri alls ekki um búpening að ræða.

Í þriðja lagi væri þetta þannig að þar sem sérstakar aðstæður væru fyrir hendi og menn yrðu kannski sammála um að varla væri efni til að eyða í og viðhalda girðingum meðfram þjóðvegum, segjum alla leiðina yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi á þjóðvegi 1, 150--200 km leið eða svo, þá keyrðu menn út af hinum afgirtu vegsvæðum og þar tækju við viðvörunarskilti þar sem umferðin væri vöruð við því að menn gætu átt von á búpeningi og þá e.t.v. fyrst og fremst sauðfé því að vörsluskylda væri á stórgripum um allt land. Þetta væri þá sambærilegt við það sem ég hygg að margir þekki af ferðum sínum erlendis. Þá kemur stundum á fáförnum slóðum, t.d. fjallvegum, að skiltum þar sem varað er við því að t.d. dádýr eða búpeningur geti orðið á vegi manns. Þetta þekkja ferðamenn jafnt innlendir sem erlendir og mundi ekki skapa nein vandamál. Slysin verða að langmestu leyti þar sem menn lenda óvænt í því, t.d. á láglendi, að mæta búpeningi uppi á vegi þar sem enginn á von á slíku. Einhvern veginn svona finnst mér að þessa framtíð mætti teikna upp og vonandi verður það fyrr en síðar að þessi mál komist í skikkanlegt horf.