Ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:59:40 (7029)

2001-04-27 15:59:40# 126. lþ. 114.20 fundur 325. mál: #A ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Jónína Bjartmarz og Sigríður Jóhannesdóttir. Hér er sömuleiðis um að ræða þingmál sem hreyft hefur verið áður á hinu háa Alþingi.

[16:00]

Tillagan gerir ráð fyrir því að fela ríkisstjórn að undirbúa áætlun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, er sýnt í einhverju formi. Sérstaklega verði athygli beint að hvers kyns efni eða athöfnum sem líklegt má telja að börn eða unglingar verði fyrir áhrifum af. Síðan er talið upp í allmörgum stafliðum að hvaða þáttum áætlunin ætti að miða sérstaklega og hvar ætti að reyna að takmarka eins og kostur er slíkt ofbeldisefni. Það er í fyrsta lagi, með leyfi forseta:

a. hvers kyns ofbeldi, misþyrmingar, limlestingar og manndráp í myndefni sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa og á myndböndum,

b. tölvuleikir, leiktæki og leikföng sem byggjast á ofbeldi,

c. ofbeldi á tölvunetum,

d. ofbeldi í sýndarveruleikatækjum,

e. ofbeldisefni í bókum, blöðum og tímaritum,

f. annað efni eða athafnir þar sem ofbeldi er hafið til vegs, réttlætt eða dýrkað, þar sem ástæðulausar eða tilgangslausar ofbeldisathafnir eru sýndar eða ofbeldi yfirleitt án listræns eða fræðandi gildis,

g. aðgengi barna og unglinga að ofbeldisefni.

Í tillögunni er lagt til að þannig verði að þessu unnið að forsrh., þar sem málið varðar mörg ráðuneyti, skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vinna með viðkomandi ráðuneytum, stofnunum og samtökum að gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir á þessu sviði, þar með talið fræðslu, sem síðan yrði lögð fyrir Alþingi í formi þáltill., afgreidd hér og myndaði þar með grundvöll einhvers konar aðgerðaráætlunar eða framkvæmdaáætlunar á þessu sviði eins og þekkt er á fjölmörgum öðrum. Ég nefni sem dæmi manneldisáætlun, byggðaáætlun, umferðaráætlun o.s.frv. sem meðhöndlaðar eru nákvæmlega með þeim hætti að þær eru lagðar fyrir þingið í formi þáltill. og mynda til nokkurra ára í senn nokkurs konar aðgerða- eða framkvæmdaáætlun.

Menn geta spurt sig, herra forseti, að tvennu kannski í þessu sambandi. Það fyrra er: Er ástæða til að reyna að takmarka framboð ofbeldisefnis og ofbeldisathafnir sem hér um ræðir? Og síðan að hinu: Er eitthvað hægt að gera í málinu, er þetta eitthvað sem menn ráða yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut við? Ég svara báðum spurningunum játandi. Það er að mínu mati svo að enginn vafi er á því að eitt af því sem er verulega háskalegt, herra forseti, og mikið umhugsunarefni í vestrænum samfélögum í dag og Ísland er þar því miður engin undantekning, er hið gríðarlega flæði alls konar ofbeldisefnis og ofbeldistengdra þátta sem steypast yfir okkur alls staðar í umhverfinu. Áreitið er svo gríðarlegt í þessum efnum í dag að þegar við hugsum bara til unglinga á viðkvæmu þroskaskeiði eða barna og förum aðeins yfir það í huga okkar hversu víða í hinu daglega umhverfi þau mæta slíkum hlutum fyllist maður í raun og veru skelfingu, herra forseti, eða það gerir ræðumaður a.m.k. Það má auðvitað draga þar upp ýmis dæmi eins og gert er í greinargerð með tillögunni.

Það sem verra er, herra forseti, að þeim þó takmörkuðu reglum sem við lýði eru og eiga að einhverju leyti að takmarka hversu mikið af slíku ofbeldisáreiti t.d. börn og unglingar verða fyrir er ekki nægjanlega vel framfylgt í fjölmörgum tilvikum.

Auðvitað er það svo að skiptar skoðanir eru um bein áhrif þess á börn og ungmenni og þess vegna allar mannverur að verða fyrir stanslausu áreiti af slíku efni og ótal kannanir í þeim efnum hafa sýnt býsna misvísandi niðurstöður. Það er sjálfsagt að viðurkenna það, enda ekki hægt um vik að sanna vísindalega eitt eða neitt í slíkum efnum. Það sem menn í besta falli geta gert með vönduðum rannsóknum og könnunum er að leiða líkur að hlutum og reyna að átta sig á því með félagslegum, ferlisfræðilegum og margs konar athugunum hvað sé líklegt að sé að gerast í þessum efnum. Þar hygg ég að óhætt sé að segja að þeirri skoðun vaxi býsna hratt fylgi nú um stundir að ein af orsökum þess að ýmiss konar ofbeldisvandamál og agavandamál og grófara ofbeldi en áður þekktist jafnvel meðal barna og ungmenna eigi sér rót í þessu mikla framboði og hinu mikla áreiti frá ofbeldisefni sem hellt er yfir okkur í dag. A.m.k. hafa kannanir sýnt það að þegar við bætast erfiðar félagslegar aðstæður, þá er alveg marktæk fylgni milli þess að þeim mun meira af ofbeldisefni sem viðkomandi er í tengslum við eða áreittur af, þeim mun líklegra er að sá hinn sami hneigist til ofbeldisfullrar hegðunar. Og jafnvel þó svo að menn verði ekki fyrir áhrifum í þeim mæli eða þeim skilningi að hjá þeim sjálfum brjótist út ofbeldisfull hegðun eða þeim hætti frekar til að fremja óhæfuverk, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af andlegum áhrifum þess engu að síður, þó svo menn kunni að bera þann harm sinn í hljóði og glíma við það án vandamála út á við sem af því leiðir að umhverfið er jafnyfirfullt af slíkum hlutum og ljótleika eins og þarna er átt við.

Ég held líka, herra forseti, að menn ættu að varast að gera lítið úr þeirri mjög svo almennu tilhneigingu foreldra, sem ég held að sé mjög almenn og útbreidd, einfaldlega af því að mönnum er það einhvern veginn bara í brjóst borið að hlífa t.d. börnum sínum við ljótum atburðum, jafnvel þó svo að menn séu ekki uppteknir af því að eitthvert ljótt myndefni í sjónvarpi eða slys sem menn koma að eða þegar á að farga dýrum eða eitthvað því um líkt sé bannað eða reglur séu um það, þá gerist það ósjálfrátt að hugsandi fólk reynir að hlífa börnum og óhörðnuðum unglingum við því að þurfa að horfa upp á slíkt. Og það er væntanlega af einhverri ástæðu, herra forseti, sem náttúran hefur komið þessu svona fyrir eða siðmenningin hefur þá falið það í sér. Ég held að það sé vegna þess að það eru gömul inngróin sannindi hjá mannskepnunni að það sé óæskilegt að menn verði fyrir slíku.

En það er vissulega úr vöndu að ráða og það er ekki jafneinfalt og það var í árdaga á fyrri tíð að vernda börn og ungmenni fyrir slíku því að þetta áreiti er alls staðar á ferðinni og út um allt í þjóðfélaginu. Það er eiginlega leitun að hlutum sem ekki tengjast meira og minna að einhverju leyti ofbeldi, stríðum, styrjöldum eða öðru slíku. Það er eiginlega sama hvar borið er niður í hinum markaðsvædda afþreyingariðnaði heimsins að hann er í ótrúlega miklum mæli, hvort sem í hlut eiga kvikmyndir, leikföng, tölvuleikir eða annað slíkt, grundvallaður á einhvers konar ofbeldi, styrjaldar- eða átakanálgun.

Eftir að hafa sagt þetta, herra forseti, og lýst þeirri sannfæringu minni sem ég vona að ég deili með mörgum að æskilegt sé að reyna að spyrna þarna eitthvað við fæti, þá ætla ég örstutt að ræða hitt atriðið: Er eitthvað hægt að gera í þessum efnum? Margir sem ég ræði þetta við eru út af fyrir sig alveg sammála mér um það að æskilegt væri að reyna eitthvað en hafa hins vegar kannski efasemdir uppi og spyrja spurninga eins og: Þýðir nokkuð að hugsa um þetta? Er þetta ekki bara eitthvað sem við ráðum ekkert við? Hellist þetta ekki yfir okkur í slíku magni í gegnum sjónvarpsstöðvar, kvikmyndahús, tölvuleiki, leikföng, bækur, blöð og tímarit o.s.frv. að það sé bara að æra óstöðugan að reyna að fást við það? Þeirri spurningu neita ég að beygja mig undir að þurfa að svara játandi. Ég trúi því ekki, ef vilji er til staðar, að ekki sé hægt að gera ýmislegt sem alla vega yrði þó frekar til bóta í þessum efnum og mér finnst líka að menn eigi að reyna að fara í gegnum lífið með einhverja meðvitund um þessa hluti og gera þó það litla sem þeir telja sig geta í þessum efnum.

Ég tel að verulega skorti á umræðu um og kynningu á mikilvægi þess t.d. hér á landi, bæði frá þessum sjónarhóli séð og líka frá almennu uppeldislegu sjónarmiði séð að hlutir eins og aldursmörk í sambandi við bannaðar kvikmyndir eða þess vegna reglur um útivistartíma eða aðrir slíkir hlutir séu virtir. Það er mjög mikið agaleysi í þeim efnum í gangi. Það þekkja t.d. allir þeir foreldrar sem eitthvað hafa reynt að standa í lappirnar sjálfir gagnvart slíkum hlutum, eins og maður hefur stundum orðað það, að helsti uppalandinn í landinu eru þessir ,,allir`` því að svörin eru yfirleitt þau að allir fái að gera þetta eða hitt og þar með á ekki að þurfa að ræða það frekar. En ef þessir allir brotna niður í einingar og reynast vera foreldrarnir í landinu eða forráðamenn barna og unglinga og þeir tækju sig saman um að gera eitthvað í málinu, þá mundi maður ætla að það gæti haft umtalsverð áhrif.

Hér geta fjölmiðlarnir einnig haft mjög mikið að segja og aðrir þeir sem eru í lykilaðstöðu til að framfylgja t.d. þeim reglum sem á þó að heita að um þetta eigi að gilda. Ég verð að segja, herra forseti, að það fer ákaflega í taugarnar á mér þegar maður stendur jafnvel virðulega fjölmiðla, opinbera eða einkarekna, að því að nánast sýna því lítilsvirðingu að halda t.d. aðgreindu slíku efni frá dagskrárliðum þar sem þess má vænta að börn og unglingar horfi á í sjónvarpi. Hér eru t.d. í fylgiskjölum tekin dæmi af auglýsingum harðsvíraðra ofbeldismynda frá vídeóleigum sem var skellt yfir áhorfendur sjónvarpsstöðvanna á þeim tíma dags eða kvölds þegar vænta mátti þess að öll fjölskyldan sæti framan við sjónvarpsskjáinn svo eitt pínulítið dæmi sé nefnt.

Mér sýnist líka vera mikið kæruleysi í gangi varðandi það að hafa eftirlit með því að börn fái ekki leigðar bannaðar myndir á myndbandaleigum, og það er sambærilegt kæruleysi og viðgengst gagnvart því að selja börnum og unglingum tóbak í sjoppum þar sem kannanir hafa sýnt að allt upp í 70--80% af söluturnum á ákveðnum svæðinu í landinu þverbrjóta slíkar reglur. Og það má alveg upplýsa það hér og kemur reyndar fram í greinargerðinni að við tókum okkur saman nokkrir foreldrar og létum á það reyna hvort unglingar í okkar hverfi gætu fengið leigðar bannaðar myndbandsspólur. Það reyndist þeim óhuggulega auðvelt, oftast án nokkurra athugasemda en stundum með því einu að bera því við að verið væri að sækja myndina fyrir foreldra eða einhvern fullorðinn á heimilinu og þá var það talin fullgild ástæða fyrir því að láta krakka á grunnskólaaldri fá harðbannaða mynd í hendur.

Það eru auðvitað fleiri, herra forseti, sem ekki standa sig vel í þessum efnum og ég held að allir þurfi að reyna að leggja sitt lóð á vogarskálarnar en það er ekki góðs að vænta ef þeir sem menn ættu helst að geta sett traust sitt á í þessum efnum sem eru auðvitað yfirvöld í landinu, ábyrgir aðilar, stofnanir, fjölmiðlar og fyrirtæki sem ættu frekar að leggja metnað sinn í að ganga á undan með góðu fordæmi heldur en öfugt. Margt er merkilegt upp á að horfa í þeim efnum, herra forseti, hvernig t.d. sum af stærstu iðnfyrirtækjum landsins kjósa að láta ítrekað á það reyna hvort þau komist upp með að brjóta afdráttarlaust bann við því að auglýsa áfengi svo dæmi sé tekið.

Herra forseti. Ég vonast til að flutningur þessa máls verði a.m.k. til þess að ýta eitthvað við umræðum um þessi mál og þá er tilganginum að einhverju leyti náð. Helst hefði ég auðvitað viljað að menn tækju á sig rögg og tækju þetta mál alvarlega. Ég held að það sé, því miður liggur mér við að segja, fullt tilefni til að gera það og þó að við séum svo lánsöm að hafa kannski ekki fengið upp umræður um ofbeldisatburði af því tagi sem tröllríða fjölmiðlum í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem morð og fjöldaaftökur á skólalóðum eru næstum að segja daglegt brauð, þá er því miður enginn vafi á því að sum einkenni eru hér sameiginleg ákveðinnar þróunar sem er neikvæð og í öfuga átt og við ættum að reyna að gera það sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn slíku.