Ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 16:15:20 (7030)

2001-04-27 16:15:20# 126. lþ. 114.20 fundur 325. mál: #A ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég vil ekki lengja umræðuna mjög þar sem langt er liðið á daginn en ég hlustaði á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og vil taka undir margt af því sem þar kom fram. Ég tel fulla ástæðu til að skoða það sem hann leggur til og athuga leiðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði á ofbeldisefni.

Það er ljóst að við höfum skyldu til að vernda börn og unglinga. Það er of mikið áreiti í þjóðfélaginu í dag gagnvart börnum og unglingum. Ég held að Íslendingar hafi sýnt of mikið umburðarlyndi gagnvart því áreiti sem börnum er boðið upp á. Ég tek undir þau orð hv. þm. að hér sé ákveðið agaleysi í þessum málum.

Mín reynsla er að ef settar eru ákveðnar reglur varðandi börn og ef þær reglur eru skynsamlegar þá tekur fólk þær yfirleitt upp og er tilbúið að fara eftir þeim. Hins vegar þarf töluvert til þess að halda þeim á lofti. Margar af þessum reglum eru einfaldar, eins og fram kemur í greinargerð með þáltill. á bls. 3. Það er verið að tala um að setja strangari reglur um sýningartíma efnis sem bannað er börnum og banna auglýsingar á efni sem ekki er leyft til sýningar fyrir alla aldurshópa nema seint á kvölddagskrá sjónvarpsstöðva. Málið snýst um fleiri svona atriði sem í raun er afar einfalt að fara eftir.

Þetta mál tengist því sem ég hef dálítið beitt mér fyrir að undanförnu, þ.e. varðandi börn og auglýsingar. Ég hef séð að það er aukið áreiti gagnvart börnum varðandi auglýsingar. Börnum er boðið upp á auglýsingar sem eru ekki við þeirra hæfi. Þær eru birtar þeim á tíma sem börn eru vakandi og efni þeirra hentar ekki börnum. Ég hef kallað eftir því við hæstv. viðskrh. að settar verði ákveðnar stjórnvaldsreglur um börn og auglýsingar. Ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon deilir þeim áhuga með mér. Það kom einmitt fram, þegar við ræddum þau mál á sínum tíma í fyrirspurnatíma, að hv. þm. hafði beitt sér fyrir því þegar samkeppnislög voru sett að þar yrðu ákvæði varðandi börn og auglýsingar. Ég tók sérstaklega eftir því.

Mig langar í þessu sambandi að segja stutta sögu. Þegar ég var að vinna í þessum málum, börn og auglýsingar, þá hafði samband við mig gamall skólafélagi sem starfað hafði erlendis í 20 ár, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann sagði, þegar hann kom heim með börn á aldrinum 8 og 10 ára, að honum hefði hreinlega verið verulega brugðið þegar hann kveikti á sjónvarpi og sagðist stöðugt þurfa að vera á varðbergi og slökkva á sjónvarpinu til þess að börnin sæju ekki þar eitthvað sem hann vildi alls ekki að þau sæju, bæði ofbeldi og kynlíf sem hann vildi alls ekki að börnin hefðu fyrir augunum dags daglega.

Ég kem upp til að taka undir þessa þáltill. og tel fulla ástæðu til þess að staldra við. Ef það þarf að samþykkja þessa þáltill. til þess þá er það hið besta mál. Ég styð þetta mál.