Ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 16:18:58 (7031)

2001-04-27 16:18:58# 126. lþ. 114.20 fundur 325. mál: #A ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Till. til þál. um aðgerðir til þess að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis er sannarlega þörf tillaga. Ég held að það sé talsvert á sig leggjandi til þess að þáltill. af þessu tagi nái fram að ganga á hinu háa Alþingi.

Eins og fram hefur komið í máli þeirra sem hér hafa talað er afar mikilvægt að löggjafinn beiti sér í að hafa áhrif á börn og unglinga og það umhverfi sem þau alast upp í.

Stór hluti þessa dags hefur farið í að ræða dóma yfir þeim sem brjóta af sér í fíkniefnamálum. Hugsanatengslin á milli þessara tveggja mála eru augljós. Unga fólkið sem elst upp í heiminum eins og hann er í dag fær ekki það atlæti sem tryggir að því sé haldið frá braut glæpa og fíkniefna. Uppeldismálin og atlæti barna og unglinga í uppvexti er grundvallaratriði í samfélagi okkar og tengist nánast öllum málum sem upp koma í samfélaginu. Því er það skylda löggjafans að taka af festu og ábyrgð á öllum þeim málum sem geta tryggt að ungviði þessarar þjóðar fái það atlæti í æsku sem geri fólk að nýtum þjóðfélagsþegnum.

Eitt af þeim atriðum í uppeldi og uppvexti barna sem skiptir máli að lögð sé rækt við er siðferði, siðferðishugsun og siðferðiskennd. Ef foreldrar, ungir foreldrar kannski sérstaklega, fá stuðning frá samfélaginu við að greina hluti á þann hátt að hægt sé að skoða siðferðið að baki því sem þjóðfélagið býður upp á þá væri þess að vænta að ungir foreldrar ættu auðveldara með að liðsinna börnum sínum og kenna þeim muninn á réttu og röngu, góðu og slæmu.

Hvað er hægt að gera? spyr hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Það er afar margt hægt að gera til þess að leggja uppalendum lið í uppeldi barna sinna. Þessi þáltill. gengur út á virkar aðgerðir í þeim efnum. Að mínu mati, herra forseti, er mikilvægt að sú hugmyndafræði sem liggur að baki þessari þáltill. hljóti góða umræðu, mikla og alvarlega umræðu löggjafans. Ég treysti því satt að segja að þetta mál fáist afgreitt úr nefnd vegna þess að það er sannarlega tímabært að hv. þm. fái tækifæri til að segja hug sinn um tillögu af þessu tagi. Ég er sannfærð um að fái hún brautargengi í nefnd og aftur hingað inn í þingsali þá komum við til með að geta afgreitt hér tímamótamál frá Alþingi sem gerir það að verkum að uppalendur í þessu landi eigi auðveldara með að innræta börnum sínum góða siði og gott siðferði sem gerir ungviðið að nýtari þjóðfélagsþegnum, hamingjusamari einstaklingum sem hvíla betur í sjálfum sér og geta lifað lífinu til gagns og ánægju.