Ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 16:23:12 (7032)

2001-04-27 16:23:12# 126. lþ. 114.20 fundur 325. mál: #A ofbeldisdýrkun og framboð ofbeldisefnis# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil í fáeinum orðum þakka undirtektirnar við þessa tillögu og taka sérstaklega undir orð hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Ákaflega væri það nú gaman að þessi tillaga fengist allt í einu óvænt afgreidd frá þinginu. Það væri skemmtileg tilbreyting miðað við örlög hennar og margra annarra mála sem þingmenn hafa hreyft á undanförnum árum og allt of oft því miður sæta því að sofna að vori. Öfugt við það sem ætti að vera, þegar allt annað er að vakna til lífsins, þá sofna tillögurnar hér á þingi.

Ég vil taka undir það sem hv. 19. þm. Reykv., Ásta Möller, nefndi um þær reglur, oft einfaldar, sem hægt væri að setja. Það eru nefnd átta, níu dæmi um slíkar reglur, ef ég man rétt, í greinargerð. En það er auðvitað fjölmargt fleira sem mætti hugsa sér að slík aðgerðaáætlun tæki til. Ég er sannfærður um að ef breiður hópur fagfólks úr uppeldisstéttum og sérfræðingar settust sameiginlega yfir þetta verkefni þá yrði ótal margt tekið til skoðunar sem til greina kæmi að setja reglur um.

Vissulega er ég einnig sammála því sem hv. 19. þm. Reykv. nefndi, að þegar slíkar reglur liggja fyrir þá hafa þær áhrif. Jafnvel þó manni þyki talsvert kæruleysi í kringum þær og allt of algengt að þær séu ekki virtar þá fylgir þeim þó kannski drjúgur hluti þeirra sem í hlut eiga. Það er gott og hefur áhrif og er til gagns í sjálfu sér. Ég er alveg sannfærður um að ástandið væri miklu verra og fleiri börn og unglingar í reiðuleysi ef engar útivistarreglur væru. Erum við ekki sammála um það? Jú, ég hygg svo vera. Þó vitum við að það er í allt of miklum mæli ekki farið eftir þeim. Þá vaknar spurningin um það hvort við eigum að gefast upp vegna þeirra sem ekki framfylgja reglunum eða horfa á hitt, að þær hafa heilmikið gildi vegna þess fjölda sem þó fylgir þeim.

Við erum mikil skoðanasystkini í því, ég og hv. þm. Ásta Möller, að það sé mikilvægt að hafa reglur um auglýsingar til að verja börn og unglinga fyrir áreiti, innrætandi auglýsingum, og fyrir þeirri aðferð sem ber af og til á, að reyna að ná til foreldra í gegnum börnin með óprúttnum hætti í auglýsingum. Sjálfum finnst mér ónotalegt, jafnvel þó verið sé að auglýsa varning sem út af fyrir sig er ekki skaðlegur börnum, þegar auglýsingum er dengt inn í barnatíma eða allt í kringum þá o.s.frv. Mér finnst það óviðeigandi og mætti sannarlega taka fastar á þeim hlutum. Þar er við að styðjast greinar í samkeppnislögunum, 21. og 22. gr., sem komust inn í þau lög eftir talsverðar umræður um málið áður á þingi. Það mál komst svo langt að fyrrv. viðskrh., sem núna stýrir banka í Helsinki, lagði fram sérstakt frv. um að sett yrði heildstæð löggjöf um auglýsingamálefni og sérstaklega vernd barna og ungmenna fyrir skaðlegum áhrifum innrætandi auglýsinga. Það náði ekki fram að ganga.

Í framhaldi af þáltill. sem ræðumaður flutti um að sett yrðu lög um þetta efni varð niðurstaðan samkomulag um að taka þetta upp í samkeppnislögin árið 1993 og þar eru þessi ákvæði enn til staðar. Þau mætti vel hugsa sér að styrkja. Það mætti líka hugsa sér að fara yfir framkvæmd þeirra og mér fyndist mjög vel koma til greina, vegna þess að auglýsingarnar eru býsna stór þáttur í þessum málum, að taka þann þátt inn í þessa tillögu með einhverjum hætti eða vinna þetta saman. Það mætti gera með ýmsu móti.

Hv. þm. bar saman stöðu Íslands og annarra landa í þessu máli. Ég get svo sem sagt svipaða sögu. Ég hef haft kynni af því hvernig þessum hlutum er háttað í Svíþjóð, eftir að hafa alið þar upp börn um skeið. Ég held að þar sé mun meira aðhald sýnt í þessum efnum. Þess er betur gætt að halda ofbeldisefni og bönnuðu efni algerlega aðgreindu, hafa það efni á þeim sýningartímum sem verulega minni líkur eru á að það komi fyrir augu barna o.s.frv.

Hér hefur á köflum verið ótrúlegt kæruleysi ríkjandi í þessum efnum, með þeirri undantekningu þó helst að ég hygg að oftast sé sæmilega skýrt varað við því í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna þegar ofbeldi, ljótar myndir frá átakasvæðum eða annað því um líkt kemur fyrir sjónir manna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en þakka undirtektirnar og bind auðvitað vonir við að tillagan fái a.m.k. vandaða umfjöllun í nefnd.