Vopnalög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 16:28:56 (7033)

2001-04-27 16:28:56# 126. lþ. 114.21 fundur 326. mál: #A vopnalög# (skoteldar) frv., Flm. ÁMöl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Flm. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16 frá 25. mars 1998. Flutningsmenn auk framsögumanns eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Drífa Hjartardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Fjeldsted.

Samkvæmt 1. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, er með skoteldum átt við flugelda, reyk- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda. VI. kafli vopnalaga fjallar um meðferð skotelda. Þar er m.a. kveðið á um að sala eða afhending skotelda til barna yngri er 16 ára er bönnuð sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum og að öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára sé óheimil.

Í því frv. sem hér er til umfjöllunar er lagt til að aldursmark barna og unglinga sem heimilt er að selja flugelda og kveðið er á um í 32. gr. vopnalaga verði breytt og hljóði þannig, með leyfi forseta:

,,Bannað er að selja eða afhenda skotelda barni yngra en 18 ára. Heimilt er þó að selja börn um eldri en 15 ára skotelda til notkunar innan húss.``

Í þessari breytingu felst einnig að það verði ekki lengur á valdi þeirra sem flytja inn skotelda að ákvarða hvaða aldurshópar megi kaupa vöruna eins og núgildandi lög gera ráð fyrir og framkvæmdin hefur verið hingað til. Gert er ráð fyrir að í reglugerð um skotelda sem hefur verið til endurskoðunar að undanförnu í dómsmrn., og liggja fyrir drög að, verði ákvörðun um flokkun skotelda og skilgreining á skoteldum sem ætlaðir eru til notkunar innan húss. Mér kunnugt um að svo er.

[16:30]

Ég vek þó athygli á að skoteldar eru í þessu sambandi samheiti yfir margar tegundir blysa, hvellsprengna, skotelda og skrautelda sem eiga í raun ekkert annað sameiginlegt en að eldfæri er notað til að kveikja í þeim. Það segir ekki til um magn púðurs eða aðra virkni skoteldsins. Þetta tek ég sérstaklega fram til að fyrirbyggja misskilning um hvað átt er við með þessu hugtaki í frv. sem hér er til umfjöllunar.

Ég vil geta þess að tveir hv. samþingmenn mínir hafa bent á að orða mætti þessa grein frv. aðeins skýrar þannig að seinni málsliður 32. gr. hljóði svo: Heimilt er þó að selja börnum eldri en 15 ára skotelda sem ætlaðir eru til notkunar innan húss.

Ég vil geta þess að íslenskufræðingar sem lásu yfir frv. gerðu ekki athugasemdir við orðalag greinarinnar en það er sjálfsagt að taka tillit til réttmætra athugasemda um orðalag þannig að greinin sé alveg skýr, og beini ég því til hv. allshn., sem ég mun leggja til að fái frv. til meðferðar, að hún skoði orðalag greinarinnar í ljósi þess.

Samkvæmt 33. gr. vopnalaga er ráðherra heimilt að setja reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda og um sérstakt eftirlit í því skyni. Núgildandi reglugerð um sölu og meðferð skotelda, nr. 536/1988, er frá desember 1988 en samkvæmt svari dómsmrh. við fyrirspurn minni um skotelda á 125. löggjafarþingi og er birt sem fylgiskjal með frv. hefur reglugerðin verið til endurskoðunar um nokkurt skeið í ráðuneytinu og verður hún birt innan skamms.

Hér á landi hefur athygli og umræða um skotelda og slys af völdum þeirra að öllu jöfnu verið bundin við áramót, enda er almenn notkun og sala skotelda til almennings einungis heimil á tímabilinu 27. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum, nema með leyfi lögreglustjóra, samkvæmt núgildandi reglugerð um sölu og meðferð skotelda.

Í greinargerðinni liggja fyrir töluverðar upplýsingar varðandi sölu skotelda, bæði í greinargerðinni sjálfri og einnig í fylgiskjölum sem fylgja með frv., en þau fylgiskjöl eru svör dómsmrh. og heilbrrh. við fyrirspurnum mínum annars vegar um sölu og eftirlit með skoteldum til dómsmrh. og hins vegar um slys og tíðni slysa af völdum skotelda til heilbrrh. Ég vil reyna að stytta mál mitt eins og mögulegt er og vísa því til greinargerðarinnar og þeirra fylgiskjala til frekari lýsingar og röksemda fyrir því af hverju ég legg fram þetta frv. um breytingu á vopnalögum.

Ljóst er að í sölu skotelda hefur orðið gríðarleg aukning á undanförnum árum, bæði í innflutningi og framleiðslu og má segja að innflutningur á skoteldum hafi fjórfaldast á fimm ára tímabili frá 1995--1999. Má rekja það til þeirra tímamóta sem urðu um áramótin 1999/2000 og svo 2000/2001 en einnig má segja að almenn velmegun í landinu geri það að verkum að fólk telur sér fært að eyða meiri peningum í skotelda.

Slys af völdum skotelda hér á landi eru meiri en við getum unað við. Ég tók saman tölur úr erlendum rannsóknum, bæði frá Danmörku og Bretlandi og ýmsum öðrum stöðum. Þar kemur fram að tíðnin er verulega hærri hér á landi þrátt fyrir að byggt sé eingöngu á tölum um tíðni slysa á Reykjavíkursvæðinu því að upplýsingar um tíðni slysa úti á landi liggja ekki fyrir. Það sem einnig er athyglisvert í þessu sambandi er að það eru aðallega ungir drengir sem slasa sig vegna skotelda og það er einmitt sérstaklega þess vegna sem ég flyt þetta frv.

Í samantekt Landsbjargar t.d. varðandi undanfarin áramót kemur í ljós að á nýársnótt hafi að meðaltali um tíu manns leitað til slysadeildar Reykjavíkur vegna flugeldaslysa, en um áramótin 1999/2000 þar sem töluvert meira magni skotelda var skotið upp en áður urðu slysin helmingi fleiri. Þar af voru 60% þeirra sem slösuðust 19 ára og yngri og um 40% þeirra sem slösuðust voru á aldrinum 10--14 ára. Ef við tökum síðan síðustu áramót, því að þetta frv. var lagt fram fyrir síðustu áramót, þá voru þau tiltölulega fá miðað við það sem við mátti búast en á móti má benda á að töluverð umræða varð í fjölmiðlum milli jóla og nýárs m.a. út af því frv. sem ég er að mæla fyrir nú og sem ég tel að hafi valdið því að fólk fór aðeins að velta fyrir sér þessum hlutum í meira mæli en áður og átta sig á því hve mikil hætta er á slysum sérstaklega hjá ungum börnum. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan í umræðu um ofbeldi vegna þáltill. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir, þá tel ég að þegar fólk fær einfaldar reglur til að fara eftir og ef þær eru skýrar og ljósar og fela í sér bein skilaboð, þá er fólk tilbúið til að fara eftir þeim og ég tel að það hafi gerst um síðustu áramót og það hafi vakið fólk til umhugsunar um hvaða hætta fælist í því að börn væru með skotelda milli handanna.

Á síðustu árum hefur verið töluvert um það að þessi mál hafi verið tekin til endurskoðunar í Evrópulöndum og það hefur verið gert ákveðið átak, lög endurskoðuð og nýjar reglugerðir settar. Helstu atriði sem hafa verið endurskoðuð á síðustu árum eru að aldursmörk þeirra sem selja má skotelda hafa verið hækkuð, skoteldar hafa verið flokkaðir, ákveðið hvaða skoteldar eru í hvaða flokki, hvaða flokkar skotelda eru ætlaðir til sölu til almennings og hverjir eingöngu til sýninga. Gerðar hafa verið auknar kröfur um öryggi, gæði og merkingu skotelda, t.d. magn púðurs í skoteldum sem má flytja inn. Settar hafa verið kröfur um prófun skotelda áður en þeir færu í sölu, svo og vottun sem viðurkennd er innan ESB á sama máta og rafvörur. Gerðar hafa verið kröfur til söluaðila varðandi sölu á varningnum, um aldur þeirra sem afgreiða og varðandi geymslu skotelda. Í nokkrum löndum Evrópu hafa aldursmörk við sölu á skoteldum verið endurskoðuð og ný reglugerð um öryggi skotelda tók gildi í Danmörku seint á síðasta ári. Þar er sala á skoteldum til barna undir 18 ára bönnuð en það er heimilt að selja og afhenda börnum eldri en 15 ára stjörnuljós og aðrar álíka vörur sem flokkast undir skotelda og eru yfirleitt til notkunar innan húss.

Í Noregi tók ný endurskoðuð reglugerð sama efnis gildi 1. júlí 1999 og þar er almennt miðað við 18 ára aldursmörk en 16 ára við minni háttar skotelda í flokki I sem er ætlaðir til notkunar innan húss. Í Bretlandi er almennt miðað við 18 ára aldur við sölu og afhendingu skotelda og tók sú breyting gildi með nýrri reglugerð sem sett var í árslok 1997. Segja má að í kjölfar þeirrar reglugerðar þar sem tekið var fastar á þessum málum snarfækkaði slysum af völdum skotelda og eru þó skoteldar ekki notaðir í jafnmiklum mæli og hér á landi.

Í lokin vil ég draga saman helstu atriði varðandi það frv. um breytingu á vopnalögum sem ég mæli nú fyrir. Þau eru að almenn notkun skotelda um áramót hér á landi er mikil, tíðni slysa af völdum skotelda hér á landi er há og á það sérstaklega við um slys á börnum. Eins og ég nefndi áðan eru 60% þeirra sem slasast undir 19 ára og 40% eru undir 14 ára aldri.

Aldursmörk á sölu á skoteldum til barna hér á landi eru mun lægri en í löndunum í kringum okkur en þar hafa þau verið hækkuð á undanförnum árum. Nauðsynlegt er að herða reglur um meðhöndlun skotelda, reglur um sölu á skoteldum, taka upp flokkun á skoteldum og endurskoða aldursmörk við sölu þeirra. Í því sambandi er sérstaklega litið til þróunar í nálægum löndum.

Samkvæmt 32. gr. vopnalaga er leyfilegt að selja og afhenda skotelda til barna undir 16 ára aldri sé þess getið í leiðbeiningum. Sala á skoteldum er óheimil til barna undir 12 ára aldri. Samkvæmt þessu ákvæði er það lagt í hendur framleiðanda eða innflytjanda vörunnar að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að selja vöruna börnum yngri en 16 ára, en það er í verkahring hans, þ.e. framleiðanda eða innflytjanda, að sjá um að leiðbeiningar um meðferð vörunnar séu límdar á hana.

Með þessu frv. er lagt til að aldursmörk við sölu skotelda séu færð úr 16 ára aldri til 18 ára aldurs. Þó sé heimilt að selja börnum frá 15 ára aldri skotelda til notkunar innan húss. Gert er ráð fyrir að ný reglugerð um skotelda sem væntanleg er innan tíðar setji fastari reglur um flokkun skotelda. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 32. gr. vopnalaga yrði það ekki lengur á valdi framleiðanda eða innflytjanda að ákvarða hvaða skotelda megi selja til yngri aldurshópsins, heldur yrði skýrt kveðið á um það í lögum og nánar útfært í reglugerð um skotelda.

Að lokum legg ég til að frv. þetta verði sent hv. allshn. til umfjöllunar að lokinni 1. umr.