Samningsmál lögreglumanna

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:07:01 (7039)

2001-04-30 15:07:01# 126. lþ. 115.91 fundur 497#B samningsmál lögreglumanna# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem komu fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og nú síðast hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að full ástæða er til að þingið taki þessi mál til umfjöllunar núna á allra næstu dögum. Ekki bara vegna þess að ekki hafi verið staðið við viðræðuáætlun og í raun hafi engin viðræðuáætlun gilt frá síðustu áramótum heldur ekki síður vegna þess að viðbótartryggingar lögreglumanna renna út á miðnætti í kvöld. Þá verður þessi stétt opinberra starfsmanna einna verst tryggð í störfum ef við miðum við aðrar stéttir opinberra starfsmanna. Lögreglan hefur þess vegna m.a. hvatt félaga sína eða félaga innan lögreglusambandsins til að fara varlega og stofna ekki lífi sínu í tvísýnu í störfum sínum. Við verðum að hafa hér öfluga löggæslu. Við höfum oft hlýtt á hæstv. dómsmrh. lýsa markmiðum sem hún hefur sett varðandi löggæsluna í landinu en öllum þeim markmiðum hefur nú verið stefnt í tvísýnu með því að hunsa algjörlega lögreglumenn og þær kröfur sem þeir hafa sett fram og sýna störfum þeirra vanvirðingu.