Samningsmál lögreglumanna

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:08:25 (7040)

2001-04-30 15:08:25# 126. lþ. 115.91 fundur 497#B samningsmál lögreglumanna# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er erfitt að fjalla beint um störf þingsins í tengslum við þetta mál. Hitt er annað mál að enn er ósamið við ýmsa hópa opinberra starfsmanna, reyndar því miður allt of marga hópa. Þó er það þannig að það er búið að semja við til að mynda stærsta félag opinberra starfsmanna, Starfsmannafélag ríkisstofnana, sem samþykkti samning sinn með yfir 70% atkvæða en þar er nú að finna helsta láglaunafólkið innan BSRB. Í morgun var samið við Félag háskólakennara og búið er að semja við nokkur félög Bandalags háskólamanna en því miður er ekki búið að ljúka þessum samningum. Það er rétt og það er miður.

En það er nú þannig að það þarf tvo til að ná samkomulagi, ekki bara einn, og í mörgum þessara samninga eru flókin atriði til umfjöllunar, eins og að því er varðar lögregluna. Þar er t.d. verið að fitja upp á nýjungum að því er varðar starfslok. Þar eru önnur eldri vandamál sem tengjast t.d. því viðmiðunarsamkomulagi sem lögreglumenn hafa og reyndar tollverðir einnig sem hefur reynst þeim erfitt í framkvæmd hin síðari ár.

Auðvitað má segja að félög opinberra starfsmanna hefðu e.t.v. getað flýtt fyrir þessu ferli með því að fela einum aðila samningsumboð fyrir það sem gæti verið miðlægt í svona samningum en fjalla sjálf um sérmálin. Það hefði t.d. mátt fela hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem er jafnframt formaður BSRB, að semja miðlægt fyrir BSRB-félögin. Eins og hann talar hér þá má gera ráð fyrir að það hefði getað flýtt fyrir. Ég geri ráð fyrir því. En því er því miður ekki að heilsa en við munum að sjálfsögðu halda þessu verki ótrauð áfram hvað sem líður umræðum hér á Alþingi. Vonandi tekst innan tíðar að ljúka samningum, ekki bara við lögreglumenn heldur öll önnur félög opinberra starfsmanna því að sérstaða þeirra að þessu leyti til er ekki mikil. Það eru því miður miklu fleiri sem eiga eftir að ljúka samningum. Þó má gera sér vonir um að þetta gangi hraðar núna á næstunni.