Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:44:08 (7055)

2001-04-30 15:44:08# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir að koma með þessar athyglisverðu ábendingar inn í umræðu um þetta mál sem virðist ekki mikið að vöxtum en athugasemdir hans og ábendingar eru vissulega réttmætar. Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna vegna þess að ég á von á því að hæstv. ráðherra muni svara því sem hér kom fram hjá hv. þm. en ekki bara sitja undir umræðunni og svara því ekki. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar og þess vegna beið ég með athygli eftir því hverju ráðherra mundu svara og hver viðbrögð hennar yrðu. Ef lýsing hv. þm. Jóhanns Ársælssonar á áhrifunum af þessu og afleiðingum sem þetta gæti haft í för með sér er rétt, þá er það vissulega alvarleg staða sem menn hljóta að velta fyrir sér.

Nú er það svo eins og við þekkjum og um það hafa komið fram svör hjá hæstv. viðskrh. við fyrirspurn þar að lútandi að einkahlutafélögum hefur fjölgað mjög á umliðnum árum. Því hefur verið haldið fram --- og það er kannski til viðbótar því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var með --- að það fælist í því að stofna einkahlutafélög ákveðin skattaívilnun þannig að þeir sem það gerðu hefðu ákveðna möguleika til að flytja ákveðinn hluta af hagnaði sem þar myndast og greiða sér laun sem eru þá með lægra skatthlutfalli en almenn laun.

Það hefur vissulega verið ákveðið áhyggjuefni hjá verkalýðshreyfingunni eins og hv. þm. nefndi að sífellt færist í vöxt þessi svokallaði verktakaiðnaður, þar sem einstaklingar, sem í raun eru bara venjulegir launþegar, eru settir í þá stöðu að vera undir verktakafyrirkomulagi þannig að atvinnurekendur sleppi við að greiða ýmis gjöld sem þeir ella þyrftu að greiða ef viðkomandi starfsmaður væri launþegi. Þessi hætta virðist vera þarna fyrir hendi, að hægt sé að fara þessa leið og undirbjóða þá bæði í þjónustu og í launakjörum.

Þess vegna óska ég eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra blandi sér eilítið í umræðuna og að við fáum að heyra hvort hún hafi einhverjar áhyggjur af því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson setti fram. Ef ég skil þetta frv. rétt þá er þetta líka lagt fram samhliða frv. félmrh. um atvinnuréttindi útlendinga og það hlýtur þá að tengjast því með ákveðnum hætti. Mér sýnist því að nauðsynlegt sé við umfjöllun málsins í nefnd að nefndirnar þurfi að einhverju leyti að vinna saman að málinu og málið þurfi þá a.m.k. að fara til umsagnar í félmn.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna en taldi ástæðu til þess af þeim orsökum sem ég hef nú greint frá.